Kvartað yfir rjúpnaskyttum á fjórhjóli

Rjúpnaveiðitímabilið stendur nú sem hæst.
Rjúpnaveiðitímabilið stendur nú sem hæst. Ingólfur Guðmundsson

Lögreglunni í Borgarnesi bárust um helgina kvartanir frá rjúpnaskyttum í Norðurárdal vegna framferðis annarra veiðimanna sem voru á svæðinu á fjórhjóli. Að sögn skyttnanna óku mennirnir utan vegar á fjórhjólinu og skutu auk þess af hjólinu, sem er óleyfilegt. Fjórhjólamennirnir neita sök og er málið til rannsóknar hjá lögreglu. Formleg ákæra hefur ekki verið gefin út.

Að sögn Steinars Snorrasonar varðstjóra hjá lögreglunni í Borgarnesi koma mál af þessu tagi upp á hverju hausti en þetta er fyrsta kvörtunin sem berst í ár. Færst hafi í vöxt að menn nýti sér fjórhjól á veiðunum en hafa þurfi í huga að um hjólin gilda sömu reglur og bíla, að ekki má aka þeim utan vega eða slóða og ekki má stunda veiði af ökutækjunum.

Steinar segir þó algengara að lögreglu berist mál þar sem veiðar hafi verið stundaðar í óleyfi inni á eignalandi. Þá sé oft um að ræða skyttur sem ekki hafi kynnt sér svæðið nægilega vel og ekki áttað sig á því að þeir séu inni á afréttum í annarra eigu. Að sögn Steinars fær lögreglan reglulega símtöl frá rjúpnaskyttum sem spyrjast fyrir um hvort veiða megi á ákveðum svæðum. Lögreglan brýnir fyrir veiðimönnum að kynna sér vel hvort þeir séu í afrétti og spyrja þá um leyfi landeiganda áður en haldið er á veiðar. Dýrkeypt geti verið að gera það ekki.

Þá segir Steinar einnig ástæðu til að minna rjúpnaskyttur á að samkvæmt lögum má ekki vera með hlaðið skotvopn í innan við 250 metra fjarlægð frá akvegi. „Obbinn af mönnum er löghlýðinn en svo kemur einn og einn svartur sauður inn á milli sem spillir fyrir hinum," segir Steinar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert