Lýsa furðu yfir málflutningi ráðherra

mbl.is/hag

Hagsmunasamtök heimilanna lýsa yfir furðu vegna málflutnings efnahags- og viðskiptaráðherra, Árna Páls Árnasonar í frétt Stöðvar 2 þann 7. nóvember 2010 um afstöðu ráðherra til almennra leiðréttinga lána. Þetta kemur fram á vef Hagsmunasamtaka heimilanna.

„Í fréttinni var sagt að það kæmi ekki til greina að fara í almennar leiðréttingar lána ef almenningur „eigi að borga reikninginn“, eins og það var orðað, og að Íbúðalánasjóður og lífeyrissjóðirnir myndu taka „stærsta skellinn“ af slíkum aðgerðum.

Athygli vekur í fréttinni að hlutur bankanna er sniðgenginn þó sá afsláttur sem veittur var af lánasöfnum við yfirfærslu milli gömlu og nýju bankanna rúmar ríflega umræddar leiðréttingar. Miðað við framsetningu fréttarinnar er engu öðru líkt en að búið sé að semja við bankana um að þeir þurfi ekki að leiðrétta fyrir forsendubrestinum hjá sér.

Hagsmunasamtök heimilanna hafa aldrei lagt til að almenningur „borgi reikninginn“, heldur líta samtökin svo á að um leiðréttingu sé að ræða vegna þess forsendubrests sem varð við hrun fjármálakerfisins og áhrif þess hruns á höfuðstól lána. Því þurfi fjármálafyrirtækin að leiðrétta bækur sínar með tilliti til ofreiknaðra verðbóta.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert