„Séreignastefnan er góð og gild en sem eina stefnan hefur hún komið okkur í ógöngur og nú má segja að það séu allir meðvitaðir um það að það þurfi að búa húsnæðismarkað sem hafi fjölbreyttari möguleika," segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður nýs samráðshóps sem félags- og tryggingamálaráðherra hefur skipað. Hópnum er ætlað að móta heildstæða húsnæðisstefnu til framtíðar.
Hópurinn byggir starf sitt m.a. á fyrirliggjandi skýrslum og tillögum um húsnæðismál sem unnar hafa verið á vegum ráðuneytisins. „Það liggja fyrir mikið af tillögum og við ætlum líka að kalla eftir fleiri frá hagsmunasamtökum. En það verður verkefni þessa hóps að koma þessum tillögum í framkvæmanlegt horf sem er flóknara mál, því það þarf að líta til eignarhalds, fjármögnunar og aðkomu ríkisins," segir Sigríður.
„Það er ljóst þó að ríkisvaldið ætli kannski ekki að reka íbúðarhúsnæði, þá er eðlilegt að á stundu sem þessari, þar sem húsnæðisöryggi ákveðinna hópa er ógnað og þar sem húsnæðismarkaðurinn keyrði algjörlega úr hófi fram, að þar hafi ríkið skoðun á því hvernig þróunin verði." Sigríður ítrekar að það sé alls ekki stefnan að kasta séreignastefnunni fyrir róða. „En það sjá það sú hugmyndafræði að allir eigi að eiga eigið húsnæði, hún bæði gengur ekki upp fyrir efnahag sumra fjölskylda, hún er óhentug oft á tíðum fyrir ygnra fólk og dregur líka úr sveigjanleika. Svo það er af mörgum ástæðum sem að skiptir máli að hafa fjölbreyttari húsnæðsmarkað þannig að fólk hafi raunverulegt val á milli þess að kaupa sér húsnæði eða leigja."
Fyrsti fundur hefur þegar verið haldinn og segir Sigríður að það hafi komið skemmtilega á óvart hve mikill samhljómur er í hópnum. „Það liggur bara í tíðinni, það sjá allir fyrir sér að svona einsleitur húsnæðismarkaður er ekki heppilegur og við þurfum að búa til raunverulega valkosti við það kerfi sem er í dag." Samráðshópurinn mun skila skýrslu um heildstæða húsnæðisstefnu til framtíðar eigi síðar en 1. apríl 2011.