Árni Þór Sigurðsson, formaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, sagði í upphafi þingfundar á Alþingi í dag, að samningur um framlengingu efnahagsáætlunar Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefði verið kynntur og um hann rætt á tveimur fundum VG í september.
Þar hefði þingmönnum gefist kostur á að lesa og ræða efni samkomulagsins.
Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, sagði á Alþingi í gær, að hvorki sex mánaða framlenging né viðbótar þriggja mánaða framlenging
á efnahagsáætluninni hefðu komið til umræðu í þingflokki VG. Hefðu nokkrir þingmenn flokksins mótmælt þeirri málsmeðferð.
Árni Þór sagði, að flokkurinn hefði lagst gegn efnahagsáætluninni á þeim tíma en þegar núverandi ríkisstjórn tók við hefði verið ákveðið að starfa í samræmi við þær skuldbindingar, sem fyrri ríkisstjórn hefði gert.
Sagði Árni Þór að félagar í VG vildu að hægt yrði að ljúka samstarfinu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem fyrst og vonir stæðu nú til að því geti lokið um mitt næsta ár.
Lilja sagði í dag, að fjármálaráðherra hefði kynnt framlengingu efnahagsáætlunarinnar á þingflokksfundi VG eftir að búið var að taka ákvörðun um hana. Sagðist hún og fleiri þingmenn flokksins hafa mótmælt því að málið hefði ekki verið rætt í þingflokkunum áður en ákvörðun var tekin um framlenginguna.