4 milljarðar á gjalddaga 2011

Hafnarfjarðarbær hefur þurft að endurgreiða 8 milljarða vegna lóðaskila.
Hafnarfjarðarbær hefur þurft að endurgreiða 8 milljarða vegna lóðaskila. mbl.is/RAX

Hafnarfjarðarbær þarf að hagræða í rekstri um 1,2 milljarða á næsta ári til að endar nái saman. Fyrirséð er að tekjur bæjarins munu minnka, m.a. útsvarstekjur vegna minni útgreiðslu á séreignalífeyrissparnaði.

Samkvæmt upplýsingum frá bænum verður samdrættinum ekki mætt nema með frekara aðhaldi, niðurskurði, endurskipulagningu verkefna, hagræðingu og endurskoðun og „endurmati“ á gjaldskrám og þjónustu.

Gerður Guðjónsdóttir, fjármálastjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir að bærinn verði að ná 1,2 milljörðum út úr rekstrinum til að geta staðið við skuldbindingar sínar, gagnvart lánardrottnum og vegna þjónustu við íbúana.  Það verði aðeins gert með því að hagræða  og auka tekjur. Nú liggi fyrir að útsvarstekjur muni lækka vegna þess að dregið hefur úr útgreiðslu á séreignalífeyrissparnaði og verið sé að meta hvaða áhrif það muni hafa.


Útsvar Hafnarfjarðarbæjar er 13,28% sem er hámarksútsvarsprósenta. Aðspurð segir Gerður að bærinn hafi heimild til að hækka fasteignagjöld og geti auk þess hækkað og breytt gjaldskrám.

Á næsta ári kemur 4 milljarða erlent lán Hafnarfjarðarbæjar á gjalddaga.
Lánveitandi er þýsk-írski bankinn DePfa og segir Gerður að viðræður séu um endurfjármögnun lánsins. DePfa bankinn á einnig í samningaviðræðum við Reykjanesbæ vegna 1,8 milljarða láns til Reykjanesbæjar.

Hafnarfjarðarbær hefur þurft að greiða út 8 milljarða vegna lóðaskila á undanförnum árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert