Tæplega sólarhrings töf varð á flugi Iceland Express frá New York til Keflavíkur í dag. Vélin átti að lenda á Keflavík um klukkan 5 í morgun en er nú væntanleg klukkan 23:30 í kvöld. Að sögn Kristínar Þorsteinsdóttur upplýsingafulltrúa Iceland Express var það bilun sem olli töfinni.
Skömmu fyrir brottför frá Newark Liberty International flugvellinum í New York kom í ljós að lítið stykki í afísingarbúnaði vélarinnar virkaði ekki eins og það átti að gera og fljótlega varð ljóst að þörf var á að skipta því út fyrir nýtt. Varahlutur var sendur frá Evrópu og vegna tímamismunar var ekki unnt að gera það fyrr en nokkrum klukkustundum síðar.
Farþegar voru að sögn Kristínar allir fluttir með rútu á nærliggjandi hótel þar sem þeir gátu gist síðustu nótt. Vélin er nú farin í loftið og er áætlaður lendingartími hennar sem fyrr segir klukkan 23:30. Kristín segir að töfin hafi engar keðjuverkandi afleiðingar í för með sér og flugáætlun til Bandaríkjanna og Evrópu verði á áætlun á morgun.