Alls sóttu 2.215 erlendir gestir tónlistarhátíðina Iceland Airwaves, sem fór fram í október. Það er 33% aukning frá árinu 2005. Voru erlendir gestir 48% af heildarfjölda þeirra sem sóttu hátíðina í ár og gistu þeir að meðaltali fimm og hálfa nótt á Íslandi.
Þetta kemur fram í könnun sem Útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) vann í samstarfi við Höfuðborgarstofu á meðal erlendra gesta á hátíðinni. Sambærileg könnun var gerð árið 2005.
Fram kemur að erlendu gestirnir hafi samtals varið 313 milljónum króna í Reykjavík á meðan dvöl þeirra hafi staðið og þá sé ekki meðtalinn kostnaður við flug til landsins eða önnur útgjöld utan borgarinnar. Niðurstöður sýna að hver erlendur gestur eyddi að meðaltali 25 þúsund krónum á dag í Reykjavík.
Í könnuninni voru gestirnir beðnir um að leggja mat sitt á hversu miklu þeir vörðu í gistingu, mat og veitingastaði, næturlíf, samgöngur, verslun og svo framvegis. Kostnaður vegna flugs þeirra hingað til lands er áætlaður um eða yfir 130 milljónir.
Í könnuninni frá árinu 2005 kom í ljós að erlendu gestirnir eyddu um 185 milljónum króna, eða um 260 milljónum miðað við verðlag nú.
Er aukningin því um 22% þegar tillit er tekið til vísitölu neysluverðs.
Í könnuninni sögðu 73% Iceland Airwaves-hátíðina vera aðalástæðuna fyrir komunni. Þá var mikil ánægja með hátíðina en 98% svarenda sögðust annaðhvort ánægðir eða mjög ánægðir með hátíðina.