10,4% í vanskilum við banka

mbl.is/Ómar

Vanskil heimila hafa aukist hjá öllum lánastofnunum  og er staðan nú sú að 10,4% hafa verið í vanskilum við viðskiptabanka í meira en 90 daga, 6,4% hjá Íbúðalánasjóði og 4% hjá lífeyrissjóðum. Vanskil við Íbúðalánasjóð eru þó minni en þau voru á árunum 1992-1997. 

Þetta kemur fram í skýrslu sérfræðingahóps um skuldavanda heimilanna. 

Í skýrslunni er bent á að kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna hafi fallið um 15,5% á árinu 2009 og spár Seðlabankans bendi til að kaupmáttur muni lækka um 6,4% á þessu ári.

Heimilin hafi haldið uppi einkaneyslu með því að draga á sparnað, annar vegar með mikilli úttekt séreignalífeyrissparnaðar eða um 40 milljarða og hins vegar hafi innlán heimila í innlánsstofnunum minnkað um 50 milljarða á þessu ári. „Í ljósi mikils kaupmáttarhraps og minni sparnaðar heimilanna blasir þó við að tölur um vanskil vitna um tölvuvert mikinn greiðsluvilja,“ segir í skýrslunni. Margvíslegar aðgerðir stjórnvalda og fjármálastofnana hafi vafalítið haft þau áhrif að draga úr vanskilum. 

Í skýrslunni er einnig bent á að samkvæmt lífskjarakönnun Hagstofunnar hafi hlutfallslega fleiri heimili verið í vanskilum með lán eða leigu árið 2004 en árið 2009. Hlutfall í vanskilum minnki eftir því sem tekjur aukast. Í tekjuhæsta fimmtungnum séu þannig hlutfallslega mun færri í vanskilum en árið 2004. Jafnframt minnki vanskilin eftir því sem tekjur aukist. Í tekjulægsta hópnum hafi hins vegar þeim fjölgað umtalsvert sem eru í vanskilum. 

„Niðurstöðutölur Hagstofu um að 7% heimila hafi verið í vanskilum með lán eða leigu á árinu 2009 ríma ekki illa við fyrrnefndar tölur fjármálastofnana um vanskil fasteignalána. Þá er sundurliðun Hagstofu á vanskilum eftir tekjuhópum einnig mikilsverð vísbending um hvar vandinn liggur. Þessar niðurstöður ramma verkefnið inn að því leyti til að skilvirkar aðgerðir til lausnar á skulda- og greiðsluvanda heimila vegna fasteignalána verða að ná til þessa hóps og kom í veg fyrir að hann fari stækkandi,“ segir í skýrslunni.

Skýrsla sérfræðinganefndarinnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert