Mat sérfræðingahóps, sem starfað hefur að undanförnu á vegum samráðshóps ráðherra og stjórnarandstöðu, er að um 10.700 heimili séu í greiðsluvanda, eða um 14,7% heimila með íbúðaskuldir eða 11% fasteignaeigenda alls.
Um helmingur heimila í greiðsluvanda skuldar meira en verðmæti fasteignar. Rúmlega 80% heimila í greiðsluvanda keypti fasteign á árunum 2004-2008 og einnig eru rúmlega 80% heimila í greiðsluvanda á höfuðborgarsvæðinu eða Reykjanesi. Flest þessi heimili eru tiltölulega tekjulág.
Í skýrslunni kemur fram, að tæplega 100 þúsund heimili töldu fram fasteignir til skatts árið 2009. Þar af töldu tæplega 73 þúsund heimili fram íbúðaskuldir, alls um 1200 milljarða kr.
Meðal íbúðaskuld er tæplega 18 milljónir króna. Íbúðaskuldir eru hæstar hjá fólki á fertugsaldri, að meðaltali um 23 milljónir hjá hjónum/sambýlisfólki og 17 milljónir hjá einhleypum/einstæðum foreldrum.
Rúmlega 20 þúsund fasteignaeigendur skulda meira en nemur fasteignamati eða 28% þeirra sem eru með íbúðaskuldir og 20% af fasteignaeigendum alls. Vanskil hafa aukist hjá öllum lánastofnunum. Vanskil yfir 90 daga eru 10,4% hjá viðskiptabönkunum, 6,4% hjá Íbúðalánasjóði og 4% hjá lífeyrissjóðum.
Skýrsla um skuldastöðu heimilanna