Alvarleg mistök við handtöku fimm pilta

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur, að alvarleg mistök hafi átt sér stað í störfum hennar þegar fimm piltar á aldrinum 16 til 18 ára voru handteknir vegna ætlaðs fíkniefnabrots aðfaranótt 18. mars 2007. 

Umboðsmaður Alþingis tók málið upp að eigin frumkvæði eftir að  fréttir birtust í fjölmiðlum af handtöku piltanna. Þar kom fram, að piltarnir hefðu ekki fengið leyfi til að hringja í foreldra sína fyrr en klukkan tvö um nóttina, þeir hefðu verið afklæddir og hefði móðir eins þeirra tjáð fjölmiðlum að umræddir lögreglumenn hefðu sýnt af sér „fljótfærni og ónákvæmni“.

Í svörum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við fyrirspurnum umboðsmanns  kom fram að umrætt mál hefði verið litið alvarlegum augum innan embættisins og að lögreglan teldi að alvarleg mistök hefðu átt sér stað í störfum hennar í málinu. Þá hefði lögreglan beðið piltanna og forráðamenn þeirra afsökunar og gripið til ýmissa aðgerða til að reyna að fyrirbyggja slík mistök í framtíðinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert