Félagið Ísland-Palestína gagnrýnir þá ákvörðun KSÍ að spila vináttuleik við Ísrael á sama tíma og landið fremur mannréttindabrot á Palestínumönnum. Segir í tilkynningu frá félaginu að sýna eigi mannréttindabrotum og landráni í Palestínu rauða spjaldið.
„Félagið Ísland-Palestína harmar og mótmælir því að Knattspyrnusamband Íslands (KSÍ) kjósi að skipuleggja, fyrir hönd Íslands, vináttulandsleik við landslið Ísraels í knattspyrnu, á sama tíma og ísraelsk yfirvöld halda ólöglegu hernámi sínu í Palestínu til streitu og tilkynna um aukið landrán og byggingu landsetubyggða á herteknu palestínsku landi," segir í tilkynningu sem félagið hefur sent á fjölmiðla.
„ Með þessu er stærsta og öflugasta félagasamband íþróttafélaga á Íslandi að senda bæði ísraelskum yfirvöldum og íbúum hertekinnar Palestínu, sem búa við dagleg mannréttindabrot og kúgun, skýr skilaboð."