Hefði ekki blásið miðstöð af

Ögmundur Jónasson, samgönguráðherra, segir að það hafi orðið sameiginleg niðurstaða á fundi hans með borgarstjóra að hætta við samgöngumiðstöðina og kanna leiðir til að bæta aðstöðu fyrir innanlandsflug vestan við flugvöllinn. Hefði það verið vilji borgarinnar að reisa samgöngumiðstöðina hefði hann ekki lagst gegn því.

Í samtali við mbl.is sagði Ögmundur að á fundinum hefði komið fram sú afstaða borgaryfirvalda að  ekki væri áhugi á því af hálfu borgarinnar að halda áfram við hönnun og byggingu samgöngumiðstöðvar. Þetta hefði raunar verið í kortunum. Á fundinum hefði komið fram vilji af beggja hálfu að bæta aðstöðu fyrir innanlandsflug, bæði fyrir starfsfólk og flugfarþega, vestan við flugvöllinn þar sem flugstöðin er.

En vildir þú að samgöngumiðstöðin risi norðan við Hótel Loftleiðir?


„Ég hef sagt að ég yrði ekki sá sem blési samgöngumiðstöðina af,“ sagði Ögmundur. Áform um miðstöðin hafi verið byggð á vilja borgarinnar, ekki síður en ríkisins. Samgönguráðuneytið hefði ávallt lagt áherslu á að bæta aðstöðu fyrir innanlandsflugið. „Ef það verður niðurstaðan, eins og allt bendir til að verði, þá finnst mér það vera mjög ásættanlegt. Mér finnst ekki hægt að bíða eftir þessu lengur,“ sagði hann.

Ögmundur minnti ennfremur á að núverandi borgaryfirvöld vildu að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýrinni. Hann væri hins vegar á þeirri skoðun að framtíð flugvallarins ætti að byggja á afstöðu landsmanna allra. Völlurinn yrði örugglega í Vatnsmýri til 2024 og vel mætti vera að hann yrði þar lengur. Hann væri sjálfur á þeirri skoðun að flugvöllurinn ætti áfram að vera á núverandi stað.

En taldir þú þörf á samgöngumiðstöð?

„Nei, það sem hefur verið efst í mínum huga og hefur allan tímann verið, er að bæta aðstöðuna fyrir innanlandsflugið. Og ég tel það ekki síðri kost sem nú verður sennilega ofan á, að bæta aðstöðuna vestan megin á flugvellinum,“ sagði Ögmundur. Hefði það verið eindreginn vilji borgarinnar að bæta aðstöðu fyrir innanlandsflugið, samhliða því að reisa samgöngumiðstöð, hefði hann ekki lagst gegn því. Hann teldi þá niðurstöðu sem nú lægi, að kanna uppbygginu vestan við flugvöllinn, fyrir ekki síðri kost. „Það er líka kostnaðarminna fyrir flugið, þarna eru flugplön og aðstaða fyrir flugvélarnar sem gerir það að verkum að þetta verður miklu ódýrari aðgerð. Á þeirri forsendu er þetta skynsamlegt í ljósi efahagsþrenginganna, að horfa til þess sem er ódýrast og hagkvæmast,“ sagði hann.


Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert