Hörður Arnarsson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að Icesave-málið truflaði vinnu við fjármögnun Búðarhálsvirkjunar. Hann vonast þó eftir að takist að klára samninga um fjármögnun virkjunarinnar á næstu mánuðum.
Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun eru hafnar en fjármögnun hennar er ekki lokið. Hörður sagði að það þyrfti að fjármagna þessa virkjun til langs tíma og hann sagðist gera sér vonir um að það tækist á næstu mánuðum.
„Það er ekki þannig að bankarnir vilji ekki lána. Það eru nokkrir erlendir bankar sem eru mjög ánægðir með stöðu Landsvirkjunar og eru ánægðir með verkefnið. Það eru hins vegar íslensk vandamál sem ekki er búið að leysa. Þar ber hæst Icesave sem að truflar fjármögnunina,“ sagði Hörður.
Hörður sagðist ekki vilja ganga svo langt með því að segja að allir þeir íslensku aðilar sem reyndu að sækja í erlent lánsfjármagn, þ.e. orkufyrirtæki, bankar eða önnur fyrirtæki, kæmu að lokuðum dyrum. Lánsfjármögnun seinkaði hins vegar vegna þessa máls.