Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra, hefur beint því til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að kanna lögmæti auglýsinga frá veðmálafyrirtækinu Betsson sem birtar eru á strætisvagnaskýlum á höfuðborgarsvæðinu.
Líkt og kom fram á mbl.is í gær þá auglýsir Betsson þrátt fyrir að í júní á þessu ári hafi Alþingi samþykkt sem lög hert auglýsingabann. Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Betsson sagði við mbl.is í gær, að ekki væri verið að auglýsa happdrætti, auglýst sé vefsvæði.
„Þótt einhverjir áhrifamenn innan íþróttahreyfingarinnar og happdrættin á
Íslandi hafi getað troðið í gegnum þingið lagabreytingu sem takmarkar
auglýsingar erlendra happdrætta á Íslandi þá hefur það ekkert með
auglýsingar á vefsíðum fyrirtækja að gera,“ sagði Sigurður.
Í lögum um
happdrætti, með breytingum sem gerðar voru í sumar, segir að ekki megi
auglýsa, kynna eða miðla hvers konar upplýsingum um happdrætti sem ekki
hefur verið veitt leyfi fyrir samkvæmt lögum eða uppfyllir ekki skilyrði
laganna, óháð því hvort starfsemi þess er rekin hérlendis eða erlendis.