Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, fullyrti á Alþingi í dag að kynningarstarf Evrópusambandsins hér á landi bryti gegn lögum sem bannaði fjárhagslegan stuðning erlendra sendiráða á Íslandi við blaðaútgáfu hér á landi.
Spurði Vigdís Valgerði Bjarnadóttur, varaformann utanríkismálanefndar þingsins, hvort ekki yrði að banna Evrópusambandsins að standa fyrir þessari starfsemi hér á landi. Valgerður svaraði neitandi, og sagði að ekki væri verið að brjóta umrædd lög.
Sagði Valgerður að Evrópusambandið hygðist kynna þá löggjöf, sem gilti þar. „Það er verið að uppfræða fólk, segja fólki staðreyndir um þetta merka samstarf ríkja," sagði Valgerður.
Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, sagði að Valgerður hefði gleymt því að meirihluti íslensku þjóðarinnar væri andstæður aðild að Evrópusambandinu. ESB væri að undirbúa hér auglýsingaherferð og menn hlytu að grípa til aðgerða þegar jafnmiklum fjármunum væri veitt til slíkra hluta frá einum aðila og raun bæri vitni.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sagði að Evrópusambandið hefði lengi starfrækt upplýsingaskrifstofu í Noregi og þar hefði lengi verið bullandi andstaða við aðild að sambandinu svo það ætti að geta glatt Vigdísi.