Gert að greiða Arion banka 3,5 milljarð króna

Arion banki
Arion banki

Hrun bankanna getur ekki eitt og sér orðið til þess að losa lántakendur undan því að standa við skuldbindingar sínar. Svo segir í niðurstöðukafla dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Arion banka gegn IceCapital. Síðarnefnda félaginu var gert að greiða bankanum tæpa 3,5 milljarða króna.

IceCaptial hét áður Sund. Í janúar 2006 tók Sund lán hjá Kaupþing banka upp á þrjá milljarða króna og var tilgangur lánsins fjármögnun á hlutabréfum í Kaupþingi. Raunar skuldbatt Sund sig til að ráðstafa öllu láninu í það verkefni.

Í október 2008 - eftir hrun bankanna - var ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka til Arion banka ákveðin. Í apríl 2009 var IceCapital tilkynnt um vanskil á láninu með innheimtuviðvörun og síðar var sent innheimtubréf.

Lögmaður IceCapital bar við að félagið sé óbundið af lánasamningunum þar sem Kaupþing hafi misnotað viðskiptavini sína til að hafa áhrif á verðmyndun hluta í bankanum og lánið hafi verið veitt til að blekkja Sund/IceCapital. Þá bar hann við að forsendur fyrir lántökunni hefðu brostið við fall Kaupþings í byrjun októbermánaðar 2008.

Óþreytandi að miðla fréttum um velgengni

Í dómi héraðsdóms er haft eftir lögmanni IceCapital, að starfsmenn Kaupþings hafi verið óþreytandi að halda fréttum að félaginu um velgengni Kaupþings og félaga þeim tengdum allt til október 2008. Þannig hafi Ingólfur Helgason, yfirmaður Kaupþing á Íslandi, sent forsvarsmanni IceCapital tölvupóst hinn 22. september 2008 um kaup Sheik Mohammed Bin Khalifa Al–Thani á 5% hlut í Kaupþingi. Þessi kaup hafi átt að sýna alþjóðlega velgengni Kaupþings og sterkan hluthafahóp en séu nú til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara sem liður í meintri markaðsmisnotkun forsvarsmanna Kaupþings.

Þá hafi rekstur Kaupþings verið sagður blómlegur þegar Sund fékk lánið til hlutafjárkaupanna. Vissulega hafi verð hluta í Kaupþingi hækkað eftir að Sund keypti hlutaféð á árinu 2006 en ekki hafi hins vegar verið allt sem sýndist og því hafi félagið fengið að kynnast haustið 2008. Þannig hafi Bjarki H. Diego, starfsmaður Kaupþings, tilkynnt félaginu 2. október 2008, að verðmæti veða fyrir skuldum þess hjá Kaupþingi væri komið niður í 72,46% af eftirstöðvum skuldbindinganna við bankann.

Það hafi ekki aðeins verið veðin sem rýrnuðu á þessum tíma heldur sýni skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis að íslenska viðskiptabankakerfið hafi allt verið komið að fótum fram og flestar ef ekki allar bjargir bannaðar þegar á árinu 2006.

Tókst ekki að sanna fullyrðingar

Í niðurstöðu dómsins segir að lögmanni IceCapital hafi ekki tekist að sanna fullyrðingar sínar fyrir dómi, s.s. að þeir sem ráku bankann hafi komið honum í þrot, að rekstur bankans eftir 2006 hafi verið einn blekkingarleikur af hálfu stjórnenda bankans, sem íslensk stjórnvöld hafi átt drjúgan þátt í að styðja við, að stjórnendur Kaupþings hafi virst hafa á árunum 2007 til 2008 unnið markvisst í þágu einstakra hluthafa sinna og tekið stöðu gegn íslensku krónunni með þeim afleiðingum að verðbólga hafi magnast hér á landi og verðtryggð lán hækkað langt umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands.

„Hér er áréttað að það fylgir því áhætta að eiga viðskipti með hlutabréf. Það er aldrei hægt að treysta því að þau einungis hækki í verði og skili hagnaði svo sem stefndi gerir í málatilbúnaði sínum," segir m.a. í niðurstöðu dómsins. „Það er ekki forsendubrestur að hlutabréf þau er stefndi keypti hafi ekki skilað hagnaði svo sem hann óskaði sér."

Þá segir: „Rannsókn bankahrunsins og háttsemi stjórnenda Kaupþings eru til meðferðar hjá sérstökum saksóknara. Það breytir því ekki að stefndi verður að standa við skuldbindingar sínar hver svo sem niðurstaða rannsóknarinnar verður.“

Umsvifamikið í fjárfestingum

Í rannsóknarskýrslu Alþingis er m.a. fjallað um Sund. Þar segir að félagið hafi verið umsvifamikið í fjárfestingum á síðustu árum, einkum innanlands. Sund átti m.a. bílaumboðin Ingvar Helgason ehf. og Bifreiðar og landbúnaðarvélar.

Þá voru fjárfestingar í fjármálafyrirtækjum áberandi, félagið átti m.a. um 12% hlut í VBS Fjárfestingabanka, 2% í Glitni, 1% í Landsbanka og um 0,6% í Kaupþingi við fall þeirra. Þá átti Ice Capital stóra hluti í Eimskip og Icelandic Group í gegnum fjárfestingarfélagið Gretti og keypti ráðandi hlut í Tryggingamiðstöðinni ásamt FL Group vorið 2007 en seldi hlut sinn til FL Group í september sama ár.

Viðskiptasambönd Sunds voru fjölbreytt, samkvæmt því sem segir í skýrslunni, og má meðal annars finna dæmi um fjárfestingar sem tengjast Björgólfsfeðgum, Ólafi Ólafssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.

Hluthafar Sunds ehf. voru þrír: Gunnþórunn Jónsdóttir (33,3%), Gabríela Kristjánsdóttir (33,3%) og Jón Kristjánsson (33,3%).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert