Keran Ólafsson, sauðfjárbóndi og hótelstjóri í Breiðavík, segir ákvörðun Póst og fjarskiptastofnunar um að hætta að aka pósti til Breiðavíkur vera gríðarleg vonbrigði.
„Þetta væri kannski skiljanlegt ef hér væri lítið
bú en það er ekki tilfellið. Við rekum Hótel Breiðavík og í sumar voru
hér 12 þúsund gestir á svæðinu. Við tökum við hundruðum póstkorta á
mánuði og sendum með póstinum en þessu fylgir einnig töluverð sala á
frímerkjum. Við búum hérna allt árið um kring og erum með stórt
sauðfjárbú eða um 650 veturfóðraðar ær, auk þess rekum við hér
rútufyrirtæki sem teygir anga sína alla leið til Ísafjarðar. Þá sjáum
við einnig um vitann á Látrabjargi en þar er ég vitavörður,“ segir
Keran sem telur umsvif sín í Breiðavík því meiri en gengur og gerist á
venjulegum sveitaheimilum.
„Íslandspóstur fullyrðir að þetta
sé dýrasta póstleið landsins en tekur þó fram að kostnaðurinn nemi 340
þúsund krónum árlega. En þegar við tökum bara frímerkjasöluna og
póstkortin sem við sendum frá okkur er leiðin ekki langt frá því að
vera sjálfbær. Við notum póstinn líka meira en venjuleg heimili. Við
tökum til að mynda á móti varahlutum í rúturnar og landbúnaðartæki.
Hótelið er með 40 rúmum auk veitingasölu og við höfum t.d. notað
póstinn til þess að fá gos og önnur drykkjaföng frá birgjum,“ segir
Keran.
Keran segir úrskurð Póst og fjarskiptastofnunnar vera
kornið sem fyllir mælinn hvað varðar lélega þjónustu sem hið opinbera
innir af hendi í Breiðavík.
„Við erum til að mynda ekki með GSM samband hér á svæðinu. Stutt er síðan Fjarskiptastofnun barði sér á brjóst og ætlaði að háhraðanettengja alla sveitabæi landsins. Ekkert hefur bólað á því þótt að umsókn frá okkur hafi legið inn hjá stofnuninni í þrjú ár. Við komum okkur sjálf upp nettengingu á eigin kostnað og höldum þeirri tengingu alfarið uppi. Hér næst ekki heldur 3G þó svo að Fjarskiptastofnun sýni með bláum lit á kortum að allt landið sé tengt. Það stenst einfaldlega ekki því þrátt fyrir bláa litin á kortinu er hér engin tenging. Þá náum við ekki sjónvarpinu og höfum aldrei gert. Engu að síður greiðum við nefskattinn og aðra skatta eins og aðrir í landinu þó ekki náist hér sjónvarp og ekki sé hægt að fær okkur póst.“ segir Keran.