Nýtt starfsleyfi fyrir Alcoa Fjarðaál

Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði.
Álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. mynd/Emil Þór

Umhverfisstofnun hefur gefið út nýtt starfsleyfi fyrir Alcoa Fjarðaál þar sem fyrirtækinu er heimilt að framleiða allt að 360.000 tonn af áli á ári í kerskálum álversins, auk tiltekinnar tengdrar starfsemi.

Umsóknin er upphaflega til komin vegna þess að framleiðsla eykst umfram áætlanir hjá rekstraraðila með straumhækkun og hagræðingu án þess þó að nein ný mannvirki verði reist vegna þess.

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 19. ágúst til 14. október. Umsagnir og fyrirspurnir bárust frá fimm aðilum og vörðuðu þær margvísleg mál, svo sem aðdraganda málsins, verkaskiptingu eftirlitsaðila og losun brennisteinssambanda.

Tekin voru upp ný losunarmörk í starfsleyfið, annars vegar fyrir heildarmagn losunar á brennisteinssamböndum og hins vegar sérstök losunarmörk fyrir losun brennisteinsdíoxíðs úr súráli. Þetta eru lítillega hert ákvæði frá þeim sem voru í starfsleyfistillögunni og þessar breytingar voru gerðar vegna athugasemda sem bárust á auglýsingatíma. Í fyrri starfsleyfum álvera hefur eingöngu verið gengið út frá losun brennisteinsdíoxíðs úr forskautum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert