Segir að auðmaðurinn hafi gefið sér peningana

Vickram Bedi.
Vickram Bedi.

Vickram Bedi, sem grunaður er ásamt Helgu Ingvarsdóttur, íslenskri unnustu sinni um að hafa haft milljónir dala út úr bandarískum auðkýfingi, segir í viðtali við héraðsfréttablað í New York ríki, að auðmaðurinn hafi gefið þeim féð. Þau Bedi og Helga hittu Bandaríkjaforseta á samkomu í vor eftir að hafa gefið í kosningasjóð demókrata.

Á vefnum lohud.com er í dag haft eftir Bedi, að Roger Davidson hafi gefið þeim Helgu stórfé fyrir að vernda hann fyrir afleiðingum þess, að hann flutti 400 milljónir dala af fé fjölskyldu hans úr evrópsku skattaskjóli. 

„Roger Davidson var ekki neyddur til þess undir neinum kringumstæðum að gera það sem hann gerði," er haft eftir Bedi. Viðtalið var tekið í fangelsi þar sem Bedi og Helga eru í haldi. Saksóknarar í Westchester í New York segja, að þau Bedi og Helga hafi sannfært Davidson að líf hans væri í hættu en þau gætu veitt honum vernd gegn greiðslu.

Mjög áhyggjufullur

Vefurinn hefur eftir Bedi, að  Davidson, sem er tónskáld og píanóleikari og tengist bandaríska stórfyrirtækinu Schlumberger Ltd., hafi í ágúst 2004 komið inn í verslunina Datalink Computer Products, sem Bedi og Helga reka í Mt. Kisco í New York.

„Hann var með tölvuna með sér og var mjög áhyggjufullur," hefur vefurinn eftir Bedi. Veira hafði komist í tölvuna og Davidson óttaðist að gögn lægju undir skemmdum. Bedi segir að í tölvunni hafi verið tónsmíðar, mikið magn af klámi og tölvupóstar sem gengið höfðu milli fjölskyldu Davidsons og lögmanna hennar um færslur á fé frá Liechtenstein til Bandaríkjanna.

„Þau voru að flytja yfir 400 milljónir til landsins og höfðu af því áhyggjur vegna þess að engir skattar höfðu verið greiddir af þessu fé í 60 ár," segir Bedi. 

Hann segir að ýmsar veirur hafi verið í tölvunni og að Davidson hafi talið að bandarísk og frönsk yfirvöld hefðu komið þeim þar fyrir til að komast yfir gögn um fjármagnsflutningana. 

Þá segir Bedi, að Davidson hafi einnig grunað að kaþólska leynireglan Opus Dei væri á eftir honum vegna þess að frændi hans einn hefði gengið í regluna og væri að reyna að refsa fjölskyldunni fyrir að svíkja undan skatti.  Hafi Davidson reynd að fá Datalink til að vernda sig fyrir þessu.

Lögregna segir að Bedi og Helga hafi byrjað árið 2004 að taka 160 þúsund dali mánaðarlega út af kreditkorti Davidsons og hafi að auki fengið aðrar greiðslur. Davidson skipaði Bedi einnig í stjórn fjárfestingarsjóðs sem rekinn var í nafni hans og barna hans. 

Bedi segist aldrei hafa beðið um að vera í stjórn sjóðsins heldur  gert það fyrir beiðni Davidsons sem hefði kunnað vel við hann og Helgu. „Við vildum halda honum rólegum."

Hann var örlátur við okkur

Þá segir Bedi, að Davidson hafi gefið þeim Helgu samtals nærri 13 milljónir dala, jafnvirði um 1,4 milljarða króna, vegna þess að þau hefðu bjargað 30 ára tónsmíðasafni Davidsons í tölvunni. „Hann var örlátur við okkur," hefur blaðið eftir Bedi.  

Bedi segir, að árið 2006 hafi Davidson orðið æ tortryggnari. Saksóknarar segja, að Bedi hafi sagt Davidson að hann hafi rakið slóð tölvuveirunnar til afskekkts þorps í Hondúras og að hann hafi sent indverskan frænda sinn þangað til að sækja tölvuna þar sem veiruna væri að finna.

Bedi segir að þetta hafi aldrei gerst heldur hafi Davidson haldið að frændi hans væri í Hondúras og stundum kallað eina af tölvum sínum „harða diskinn í Hondúras."

Þá segir Bedi, að Davidson hafi á tímabili gerst ástleitinn við Helgu og jafnvel lýst því yfir að hann vildi kvænast henni.

„Við sögðum honum að hann gæti ekki hagað sér svona," hefur blaðið eftir Bedi. „En hann sagðist vera yfirstéttarmaður og gæti gert það sem hann vildi."

Gáfu í kosningasjóð demókrata

Í annarri frétt á vefnum lohud.com kemur fram, að þau Bedi og Helga hafi gefið 20 þúsund dali í kosningasjóð bandaríska Demókrataflokksins á þessu ári og því fengið boð á samkomu á Manhattan í maí þar sem þau hittu Barack Obama, Bandaríkjaforseta, og létu taka af sér mynd með honum.

Haft er eftir talsmanni Hvíta hússins, að þetta fé verði nú gefið til góðgerðarmála í ljósi þess, að þau Bedi og Helga hafa verið ákærð fyrir stórfelld fjársvik. 

Fram kemur að Bedi hafi gortað sig af tengslum við George W. Bush, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og Vladímír Pútín, Rússlandsforseta. 

Átti fjölda fasteigna

Fram kemur að fjölskylda Bedi hafi átt að minnsta kosti fimm fasteignir í New York ríki.   Saksóknarar segja, að síðsumars hafi Bedi grunað að spilaborgin væri að hrynja og að hann hafi verið að reyna að koma eignunum í skjól og undirbúa að flýja land. 

Um miðjan október flutti hann eignarhald á fimm fasteignum yfir í jafnmörg fyrirtæki, sem hann stofnaði sama dag.    

Frétt Lohud.com

Mynd sem vefurinn lohud.com birtir af þeim Helgu og Bedi …
Mynd sem vefurinn lohud.com birtir af þeim Helgu og Bedi með Barack Obama.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert