Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ákveðið að taka til meðferðar mál Bjarkar Eiðsdóttur gegn íslenska ríkinu, svokallað Vikumál, þar sem Björk hlaut dóm fyrir meiðyrði, en stefnandi þess máls var eigandi nektarstaðarins Goldfinger í Kópavogi.
Mannréttindadómstóllinn hefur sömuleiðis ákveðið að taka til meðferðar mál Erlu Hlynsdóttur blaðamanns gegn íslenska ríkinu, vegna dóms sem hún hlaut fyrir meiðyrði, en stefnandi þess máls var eigandi nektarstaðarins Strawberries í Lækjargötu.
Mannréttindadómstóllinn hefur gefið íslenska ríkinu frest til 16. febrúar 2011 til að skila inn athugasemdum vegna málanna og svara spurningum dómstólsins um það hvernig þau viðmið, sem beitt var við niðurstöðu í málunum, samræmast 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og hvort brýna nauðsyn hafi borið til að takmarka tjáningarfrelsi blaðamannanna.
Að fengnum athugasemdum íslenska ríkisins mun Mannréttindadómstóllinn að öllum líkindum leggja dóm á málin, segir í tilkynningu frá Blaðamannafélagi Íslands.
Tvö önnur mál eru til meðferðar hjá Mannréttindadómstólnum, en Erla Hlynsdóttir er aðili að þeim báðum. Lögmenn Höfðabakka reka öll málin fyrir blaðamennina.