Marinó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, segir að seta sín í sérfræðingahópnum um skuldavanda heimilanna hafi ekki breytt þeirri skoðun sinni að besta leiðin felist í almennri niðurfellingu skulda ásamt fleiri aðgerðum. Bankarnir hafi svigrúm til mikillar niðurfellingar.
Hann segir að hækkun vaxtabóta hafi alls ekki mestu áhrifin. Slíkt muni hafa áhrif á afar fáa, m.a. vegna þess að lækka á skerðingarmörk vaxtabóta sem geri það að verkum að stærsti hluti vaxtabóta muni fara til einstaklinga og síðan til einstæðra mæðra. Hækkun vaxtabóta taki hins vegar ekki til hjóna í greiðsluvanda. Þá sé hæpið að treysta því að næsta ríkisstjórn myndi halda stefnu um hærri vaxtabætur til streitu. Hann hyggst senda frá sér sérálit innan skamms.
Kostnaður við flata lækkun skulda um 15,5% nemur 185 milljörðum og niðurfærsla skulda miðað við upphaflega lánsfjárhæð kostar 155 milljarða, að því er segir í skýrslu sérfræðingahópsins. Fyrri leiðin myndi hafa áhrif á tæplega 73.000 manns og í skýrslunni segir að við þetta myndi fólki í greiðsluvanda fækka um u.þ.b. 20%. Áhrif af því að færa skuldir að upphaflegri lánsfjárhæð eru sögð svipuð.
Marinó segir að menn verði að fara varlega í að fullyrða eitthvað um hvaða leið sé best. Misjafnt sé hvaða hópum hinar mismunandi leiðir gagnist best. Fyrir þá verst settu sé langbest að tvöfalda launin því sá hópur hafi hvorki efni á framfærslu né afborgunum skulda.
„Vinna mín í sérfræðingahópnum breytti ekki þeirri skoðun minni að það eigi að fara í einhverja útfærslu á flatri niðurfærslu, ásamt öðrum aðgerðum til viðbótar. Það er þannig með allar þessar leiðir að þær leysa takmarkaðan vanda en skilja annan eftir,“ segir hann.
En hvað um kostnaðinn, 185 eða 155 milljarða?
„Ég veit ekki betur en að bankarnir hafi fengið 420 milljarða afslátt af lánum heimilanna voru færð til nýju bankanna frá þeim gömlu. Af hverju eiga þeir að sitja á þeim pening? Er það réttlæti eða lögmál að þegar bankakerfi setur hagkerfi á hliðina, þá eigi skattgreiðendur að borga fyrir uppbyggingu bankakerfisins og bankakerfið eigi síðan að eignast allar eignir heimilanna?“
Marinó segir að það hafi komið skýrt fram, m.a. í gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að bankarnir hafi meira en nóg svigrúm til að hægt sé að færa niður skuldir. Í nýjustu skýrslu AGS komi fram að innheimtuvirði lána sé 3.700 milljarðar en bókfært virði sé um 1.700 milljarðar.