Fórnarlamb bíræfinna svikahrappa

Roger Davidson.
Roger Davidson.

Roger Davidson, bandaríski auðkýfingurinn sem íslensk kona og unnusti hennar eru ákærð fyrir að hafa haft af stórfé, segist hafa orðið fórnarlamb velskipulagðra svikahrappa.

Saksóknarar segja, að Vickram Bedi og Helga Ingvarsdóttir, sem reka tölvuþjónustu í New York ríki, hafi haft allt að 20 milljónir dala út úr Davidson á sex ára tímabili með því að sannfæra hann um að erlendir útsendarar hefðu komið fyrir veirum í tölvu hans og sætu um líf hans.

Bedi sagði hins vegar í viðtali við héraðsfréttamiðil í New York í gær, að Davidson hefði gefið þeim Helgu féð fyrir að vernda sig fyrir afleiðingum þess að hann og fjölskylda hans fluttu 400 milljónir dala úr evrópskum skattaskjólum til Bandaríkjanna án þess að greiða skatta af fénu.  

Vefurinn lohud.com segir í dag, að Davidson hafi ekki viljað ræða um málið en sent frá sér yfirlýsingu gegnum almannatengslafyrirtæki. Þar segir, að þeir sem frömdu þennan þjófnað séu ekki einfaldir tölvuviðgerðarmenn, eins og sumir fjölmiðlar hafi viljað vera láta.

„Þeir ráku þróað tölvu- og netöryggisfyrirtæki og gerðu Davidson að trúnaðarmanni sínum og ræktuðu við hann vináttu á sama tíma og þeir ófu um hann flókinn svikavef," segir í yfirlýsingunni.  

Þar segir, að Davidson sé kunnur píanóleikari sem fékk alvarlega veiru í tölvu sína en í tölvunni hefðu verið verðmæt verk sem hann vildi bjarga. Hann sé hins vegar ekki tölvusérfræðingur frekar en margir.

„Meginmarkmið Davidsons er nú að veita saksóknaraembætti Westchester þá aðstoð sem hann mögulega getur til að tryggja að þessir glæpamenn fái makleg málagjöld," segir í yfirlýsingunni. „Að sjálfsögðu vill hann endurheimta sem mest af því fé, sem stolið var frá honum. Upplýsingarnar sem birtar hafa verið í fjölmiðlum um málið eru ófullkomnar en umfang afbrotanna, sem Davidson og fjölskylda hans urðu fyrir, mun koma í ljós í réttarsalnum. Þangað til biður Davidson um að friðhelgi einkalífs hans og fjölskyldu hans sé virt á þessum erfiðu tímum."

Langalangafi Davidsons var einn stofnandi fyrirtækisins Schlumberger Ltd., sem nú er eitt af stærstu fyrirtækjum í Bandaríkjunum og hefur m.a. skrifstofur í París og Haag. Davidson, sem er 58 ára, stofnaði plötuútgáfuna Soundbrush Records og stofnunina Society for Universal Sacred Music. Hann hefur bæði leikið inn á plötur og stjórnað upptökum.

Frétt lohud.com

Segir að auðmaðurinn hafi gefið sér peningana

Fjársvikamál vekur athygli

Greiddi 18 milljónir á mánuði

Íslensk kona grunuð um stórfelld fjársvik

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert