Raftur verður felldur í vetur

Kynbótahrúturinn Raftur 05-966.
Kynbótahrúturinn Raftur 05-966.

Líkur eru á að einn besti kynbótahrútur landsins, Raftur frá Hesti í Borgarfirði, verði felldur eftir sauðfjársæðingar í vetur. Ástæðan er sú að gríðarlega mikið er til undan Rafti og synir hans eru að fylla sæti hans.

Þetta kemur fram í hrútaskránni sem var að koma út. Skráin er mikið notuð og er ómissandi hluti af starfi sauðfjárbænda um allt land. Í skránni er að finna upplýsingar um 22 hrúta. Raftur og Hvellur frá Borgarfelli í Skaftártungu eru elstu hrútarnir í skránni, fæddir 2005.

Raftur er mest notaði hrútur í landinu og liggur því fyrir meiri reynsla um afkvæmi hans en nokkurs annars hrúts. Hann var um tíma hæsti hrútur landsins í kynbótamati fyrir kjötgæði en hefur nú orðið að víkja þar fyrir nokkrum sona sinna.


Kjötgæði afkomenda Rafts liggja mest í mjög lítilli fitu en einnig eru lömbin undan honum með ákaflega þykka og vel lagaða vöðva og gerð þeirra öll mjög góð. Dætur Rafts hafa reynst mjög frjósamar ær og einnig er mjólkurlagni þeirra góð. Sá ókostur hefur þótt mestur við mörg afkvæma Rafts að skap þeirra þykir oft lítt hamið, að því er segir í hrútaskránni.

Hrútaskráin

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert