„Hvað varðar lífeyrissjóðina þá ætlum við einfaldlega að ræða þennan fund í okkar hópi. Ég á nú von á því að það verði kallað til fundar fljótlega, kannski í næstu viku. Það lýstu allir vilja yfir því að vera tilbúnir að setjast niður,“ sagði Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða, að loknum samráðsfundi stjórnvalda með hagsmunaaðilum í dag.
Hann segir að engin ákvörðun hafi verið tekin en að farið hafi verið yfir málin í heild.
Aðspurður segir Arnar að lífeyrissjóðirnir hafi ekki tekið afstöðu til þess hvaða leið sé best til að leysa skuldavanda heimilanna. Hins vegar hafi þeir lýst andstöðu við flatri niðurfellingu.
„En við erum tilbúnir til að skoða aðra þætti, þætti sem eru ekki útgjaldamiklir. En umfram allt þá verðum við að gæta þess líka í lífeyrissjóðunum, að allar eignir lífeyrissjóðanna eru auðvitað réttindi sjóðsfélaga. Þannig að við erum ekki í þeirri stöðu, eins og kannski aðrir, að hafa gert ráð fyrir því að það yrðu niðurfellingar á lánum,“ segir Arnar.