29 ára gömul kona játaði í Héraðsdómi Reykjaness í morgun á sig fjárdrátt í opinberu starfi. Hún var þá starfsmaður sendiráðs Íslands í Vín í Austurríki. Fjárdrátturinn nam samtals rúmlega 50 milljónum króna.
Konan var sendiráðsfulltrúi í sendiráði Íslands í Vín í Austurríki og síðar stjórnarráðsfulltrúi og starfsmaður á rekstrar- og þjónustusviði utanríkisráðuneytisins. Hún er ákærð fyrir að hafa dregið sér og notað heimildarlaust í eigin þágu samtals 335.768 evrur. Hún millifærði í 193 skipti af reikningi í eigu íslenska sendiráðsins í Vínarborg, sem hún hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning.
Hún lét einnig hjá líða að tilkynna að hún væri enn að fá staðaruppbót eftir að hún flutti heim frá Vín.
Konan játaði sakargiftir við þingfestingu málsins í morgun.