„Við vorum að kalla eftir því að tekið sé tillit til þess að flugvöllurinn sé ekki bara mál borgarinnar heldur einnig landsbyggðarinnar,“ segir Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, sem sat í morgun fund með Jóni Gnarr borgarstjóra, Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, og Eiríki Birni Björgvinssyni, bæjarstjóra á Akureyri, þar sem málefni Reykjavíkurflugvallar voru til umræðu.
Farið var yfir stöðuna og varð niðurstaða fundarins sú að menn ætla að leita lausna sem geta nýst bæði Reykjavíkingum og íbúum landsbyggðarinnar.
„Þetta var mjög góður fundur
þar sem rætt var um þetta mál vítt og breitt. Það er skilningur á báða
bóga, við skiljum að Reykjavík er með skipulagsvandamál og borgin áttar
sig að hún þarf að hafa hagsmuni allra í huga en ekki aðeins þrengstu
hagsmuni Reykjavíkur,“ segir Daníel.
Hann bætir við að ekki
liggi fyrir neinn vilji eða stefna Besta flokksins að flugvöllurinn
fari úr Vatnsmýrinni. Þá sé ljóst að flugvöllurinn verði í
Vatnsmýrinni að minnsta kosti til ársins 2024. „Það er inni
aðalskipulagi til 2024 og það hefur ekki tekin ákvörðun lengra fram í
tímann, sérstaklega þar sem fara á í uppbyggingu á flugvellinum,“ segir
Daníel. Ákveðið var að bæta aðstöðu til innanlandsflugs vestan við
flugvöllinn og hverfa frá hugmyndum um byggingu samgöngumiðstöðvar.
Þykir
hún fýsilegri miðað við efnahagsaðstæður frekar en að reisa
samgöngumiðstöð austan við flugvöllinn sem yrði einnig afgreiðsla fyrir
rútur, strætisvagna og leigubíla. Ljóst er að auk byggingarinnar
sjálfrar myndi fylgja henni umtalsverður kostnaður til dæmis við að
malbika ný flughlöð og ný bílastæði við miðstöðina.
Hugmynd um
samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll hefur verið til umræðu í rúm
fimm ár og verið til meðferðar bæði hjá borgaryfirvöldum og
samgönguyfirvöldum. Til skoðunar hafa komið ýmsir kostir, bæði austan
og vestan við flugvöllinn og hefur nú verið ákveðin sú leið sem að
framan getur. Ráðherra og borgarstjóri samþykktu að vinna þessari leið
frekara brautargengi á næstu vikum.