Segir að njósnað hafi verið á Laufásvegi

Bandaríska sendirráðið við Laufásveg.
Bandaríska sendirráðið við Laufásveg. Sverrir Vilhelmsson

Benedikt Erlingsson, leikari og leikstjóri, segir að fylgst hafi verið með húsi foreldra sinna við Laufásveg, en húsið er við hliðina á bandaríska sendiráðinu. Fyrir þremur árum hafi fundist rafmagnsvír í vegg sem hann telur að Bandaríkjamenn hafi komið þar fyrir í þeim tilgangi að hafa eftirlit með húsinu.


Benedikt sagði frá þessu í viðtali við Rás tvö í morgun. Hann sagðist almennt vera ánægður með að hafa alist upp í nágrenni við bandaríska sendiráðið, en hann og foreldrar hans, Erlingur Gíslason leikari og Brynja Benediktsdóttir leikstjóri, hafi alla tíð gengið út frá því að fylgst væri með þeim.


„Árið 2007 brutu foreldrar mínir niður vegg til að gera gat á milli herbergja og þá komu vírar í ljós sem þurfti að færa til. Það kom rafvirki og hann sló út allt rafmagn á húsinu. Síðan var hann að klippa á vírana og þá var ennþá straumur á einum vírnum. Hann skildi ekkert í þessu og spurði hvort að það væri rafstöð í húsinu? Það var búið að slá öllu rafmagni út af húsinu. Hann fór svo að mæla og þá var amerísk spenna á vírnum. Pabba fannst þetta bara fyndið. Hann sagði, þú býrð hérna við hliðina á aggresívu heimsveldi og auðvitað njósnar það um þig,“ sagði Benedikt.

Benedikt sagði að það ætti ekki að þurfa að koma neinum á óvart þó að það hefði verið njósnað um foreldra sína sem bjuggu við hliðina á sendiráðinu og voru þekktir vinstrimenn. Hann benti á að Richard Nixson og Ronald Reagan hefðu gist í sendiráðinu og sendiráðið hefði að sjálfsögðu þurft að fylgjast með næsta nágrenni þess. Annað væri ekki faglegt.


Benedikt sagðist aðallega hafa samúð með því fólki sem þyrfti að vinna þessi eftirlitsstörf. Það geti ekki verið skemmtilegt að hlusta leynilega á fólk sem býr á Laufásvegi og skrifa niður það sem það segði og þýða yfir á ensku eða elta drukkna unglinga sem væru að þvælast þarna fyrir utan.

Benedikt Erlingsson
Benedikt Erlingsson Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert