Greiningardeild Arion banka spáir því, að ársverðbólgan verði komin niður í rúmlega 1% eftir um þrjá mániði og að verðbólgan verði í kringum það gildi á næsta ári og haldist undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á mitt árið 2012.
Arion banki segir, að áfram verði slaki í hagkerfinu og kaupmáttur heimila lítill. Því megi gera ráð fyrir að eftirpurn verði lítil út næsta ár. Einnig telur bankinn, að launahækkunum verði stillt í hóf og atvinnuleysi haldist áfram hátt. Lítil hætta sé því á kostnaðarverðbólgu vegna launahækkana.
Þá reiknar bankinn með því, að gengi krónunnar haldist stöðugt og gjaldeyrishöftin verði áfram til staðar. Því bendi fátt til stórvægilegra breytinga á gengi krónunnar á næstu misserum.
Gert er ráð fyrir að skatthækkanir verði heldur minni á næsta ári en verið hefur. Þá er gert ráð fyrir frekari gjaldskrárhækkunum hjá sveitarfélögum og kemur meginþungi þeirra fram á fyrsta fjórðungi næsta árs.
Greiningardeild Arion banka segir, að húsnæðisliðurinn hafi engin áhrif á verðbólgu á næsta ári. Auðveldlega megi þó færa rök fyrir því að sú spáforsenda sé í bjartsýnari kantinum einkum ef kaupsamningum fari að fjölga að einhverju ráði. Líkur séu á því að auknar veltutölur muni endurspegla lækkandi fasteignaverð.