„Nú erum við á fullu við að ná vopnum okkar á nýjan leik fyrir næstu önn og skipuleggja skólaárið,” segir Magnús Árni Magnússon rektor Háskólans á Bifröst í samtali við fréttavefinn Skessuhorn.
Þar segir að Magnús hafi haldið upplýsingafund með nemendum í morgun þar sem fram hafi komið mikill stuðningur við ákvörðun hans um að styðja ekki áframhaldandi viðræður við Háskólann í Reykjavík.
„Það er gott að geta rætt milliliðalaust við nemendur eftir þá miklu athygli sem skólinn hefur fengið að undanförnu. Ég finn fyrir þéttum stuðningi við ákvörðun mína. Þá er ég einnig þakklátur fyrir hversu samfélagið hér í kring; ýmis félög, sveitarstjórn Borgarbyggðar og fleiri hafa sýnt í verki undanfarna daga að fólki er ekki sama um hvernig vélað verður með framtíð Háskólans á Bifröst,“ segir hann í samtali við Skessuhorn.
Bent er á að Magnús Árni og Andrés Magnússon, stjórnarformaður skólans, hafi ekki verið samstíga í ákvörðunum um áframhald viðræðna um sameiningu háskólanna tveggja. Andrés sitji í umboði Hollvinasamtaka Bifrastar. Aðalfundur félagsins hafi verið boðaður nk. miðvikudag og þar verði Andrés annaðhvort að freista þess að endurnýja umboð sitt sem stjórnarmaður fyrir hönd félagsins eða stíga til hliðar.
Þá er haft eftir Magnúsi Árna að stjórn skólans komi saman til fundar næstkomandi mánudag. Þar muni hann leggja fram áætlun um stefnu skólans og framtíðarsýn.