Bankarnir hafa ekki orðið við beiðni viðskiptaráðherra um að senda frá sér yfirlýsingar þar sem þeir lofa því að höfða ekki skaðabótamál komi á daginn að þeir hafi ofgreitt kröfuhöfum við gengislánaleiðréttingu.
Þetta kom fram í fréttum Sjónvarps. Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra, sagði nýlega, að beðið væri eftir þessum yfirlýsingum svo hægt væri að leggja fram frumvarp á Alþingi um gengisbundin lán. Frumvarpið var lagt fram á fimmtudag.
Þórólfur Matthíasson,
prófessor í hagfræði við HÍ, sagði í fréttum Sjónvarpsins, að hætta sé á því að eigendur bankanna segi, að þeir vilji fá bætur vegna þess sem þeir telji sig hafa
verið knúna til að ofgreiða lánþegum vegna leiðréttingar á gengislánum.
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður fer með mál margra stórra erlendra kröfuhafa. Að sögn Sjónvarpsins hefur hann sent öllum fjármálastofnunum bréf þar sem hann segist ætla að höfða mál gegn þeim fyrir hönd kröfuhafanna, ef bankarnir verða við ósk ráðherrans og senda frá sér yfirlýsingar með loforði um að höfða ekki skaðabótamál.
Sagði Þórólfur, reikna megi með að heildarfjárhæðin kunni að hlaupa á tugum milljarða.