Snjó hefur kyngt niður í Eyjafirði í nótt og segir lögreglan á Akureyri, að þar innanbæjar ásé ekkert fólksbílafæri. Hefur lögreglan reynt að koma þeim til aðstoðar sem hafa lent í vandræðum.
Að sögn Vegagerðarinnar er þæfingsfærð um allan Eyjafjörð og Víkurskarð er ófært. Mokstur gengur seint. Biður lögreglan á Akureyri því fólk um að taka mið af þessu áður en það fer af stað að heiman í morgunsárið.
Vegagerðin segir, að á Norðurlandi sé víða hvasst og mikil ofankoma. Stórhríð er á Vatnsskarði og ófært yfir Þverárfjall og milli Sauðárkróks og Hofsóss og eins á Siglufjarðarvegi utan Fljóta.
Þungfært er á Öxnadalsheiði. Mikil ofankoma er við Eyjafjörð og ófært er um Víkurskarð og Dalsmynni en þæfingur á öðrum leiðum. Svipað er að segja um Þingeyjasýslur, þar er hríðarveður og víða þæfingsfærð. Stórhríð er á Hólasandi og ófært á Hálsum.