Óhefluð umræðumenning Íslendinga í netheimum

Daniel Radcliffe kemur til frumsýningar á nýjustu myndinni um Harry …
Daniel Radcliffe kemur til frumsýningar á nýjustu myndinni um Harry Potter. Reuters

Þorskastríðið, Harry Potter, Búsáhaldabyltingin, Vatnsveitan í Reykjavík, vörumerkið „ég“ og þrælabörn á Indlandi virðast fátt eiga sameiginlegt. Allt eru þetta þó viðfangsefni á nemendaráðstefnu meistaranema í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands, sem ber yfirskriftina Menningarbræðingur.

Blásið verður til bræðingsins í dag, laugardaginn 13. nóvember og þar munu nemendurnir halda erindi um hin ýmsu hugðarefni sín, en flutningurinn er hluti af námsmati.

Björg Magnúsdóttir, einn meistaranemanna, segir erindin vera með endemum fjölbreytt, enda er nemendahópurinn síður en svo einsleitur. „Við komum úr öllum áttum, erum á ýmsum aldri og með margvíslega menntun,“ segir Björg. „Við höldum örstutt erindi og mörg þeirra tengjast meistaraverkefnunum okkar.“

Fólkið á bak við lyklaborðið

Björg mun fjalla um samræður Íslendinga í netheimum, en það byggist á útskriftarverkefni hennar úr stjórnmálafræði. „Umræðumenningin breytist þegar fólk er komið á bak við lyklaborð. Þetta er mjög óheflað umhverfi og fólk er óhrætt við að halda fram ýmsum skoðunum sem það myndi líklega ekki gera augliti til auglitis. Ég hef séð ótrúlegustu ummæli í skjóli nafnleyndar.“

Af öðrum verkefnum nefnir Björg erindi þar sem fjallað er um Harry Potter og hvernig fullorðnir sækja í unglingamenningu.

Annað erindi heitir Vörumerkið „ég“ og þar er fjallað um þá ímynd sem fólk skapar sér út á við á samskiptasíðum eins og Facebook. Enn eitt verkefnið fjallar um ljósmyndir fjölmiðla af búsáhaldabyltingunni. Borin verður saman umfjöllun prentmiðla í ljósmyndum og því velt upp hvernig þær hafa haft áhrif á skynjun lesandans á þessum atburðum.

Ráðstefnan verður í sal 132 í Öskju og hefst klukkan 9.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert