Skorið niður í rekstri kirkjunnar um 10%

Atkvæðagreiðsla á kirkjuþingi í dag.
Atkvæðagreiðsla á kirkjuþingi í dag. mynd/kirkjan.is

Samkvæmt rekstaráætlun þjóðkirkjunnar fyrir næsta ár verður skorið niður um 10% í almennin rekstri. Að auki verða lögð niður þrjú stöðugildi presta auk þeirra tveggja sóknarprestsembætta, sem kirkjuþing 2009 ákvað að leggja niður vegna starfsloka, eða samtals fimm embætti.

Þetta kom fram í skýrslu, sem Jóhann E. Björnsson flutti á kirkjuþingi í dag um fjármál þjóðkirkjunnar. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verða fjárframlög til kirkjunnar 3,52 milljarðar á næsta ári en samkvæmt fjárlögum þessa árs nema framlög til kirkjunnar 3,85 milljörðum.

Í skýrslunni kom fram að leggja á niður sóknarprestsembætti í Holtsprestakalli, Suðurprófastsdæmi frá 1. febrúar 2011 og Kálfafellsstaðarprestakall frá 1. maí. Við það sparast 14 milljónir á næsta ári og 17,6 milljónir króna árið 2012. 

Á árinu 2011 verða lögð niður embætti, sem svara til þriggja stöðugilda presta og sparast á því ári 14,4 milljónir vegna launa og embættiskostnaðar. Árið 2012 sparast 26,4 milljónir vegna þessa.

Þá kom fram, að lækkun launakostnaðar starfsmanna biskups Íslands og kirkjumálasjóðs samsvari fækkun um 5,2 stöðugildi. Hjá biskupi Íslands verður fækkað um 1,2 stöðugildi, sem sparar 7 milljónir á næsta ári og 9 milljónir árið 2012. Sparnaður vegna annarra launa og rekstrarkostnaðar er 6,1 milljón en samtals sparast 13,1 milljónir á milli áranna 2010 og 2011.

Hjá kirkjumálasjóði verða lögð niður 4 stöðugildi. Verður  starfsfólki sjóðsins fækkað um 3 á næsta ári og við það sparast 11,5 milljónir það ár og 19,7 milljónir árið 2012. Þá verður lagt niður sem svarar 1 stöðugildi hjá biskupi Íslands sem greitt er úr kirkjumálasjóði og sparast við það 3,2 milljónir  árið 2011 en 6,5 m.kr. árið 2012. Að auki verður dregið úr viðhaldskostnaði fasteigna og nýjum verkefnum frestað.

Í skýrslunni kom einnig fram, að námsleyfi presta verði 3 mánuðir á árinu 2011 í stað 36 mánaða árið 2009. Sparnaður vegna námsleyfa verður um 21,7 milljónir árið 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert