Snjóhengja féll á barn

Íbúar á Akureyri þurftu nánast að grafa bíla sína út …
Íbúar á Akureyri þurftu nánast að grafa bíla sína út úr snjónum í dag. mbl.is/Skapti

Snjóhengja féll af húsi á Akureyri á sex ára gamla stúlku um hádegisbil í dag. Nágranni stúlkunnar sá hvað gerðist og gróf stúlkuna upp. Að sögn lögreglunnar á Akureyri er ekki talið að litlu stúlkuna hafi sakað en hún var nokkuð skelkuð.

Einir Heiðarsson, sem bjargaði stúlkunni, sagði í fréttum Ríkisútvarpsins, að snjórinn hefði verið mjög þéttur, eins og steypa, og því hefði gengið illa að losa stúlkuna.

Einir sagðist hafa verið að moka snjó þegar hann varð var við að nágrannakona hans var að hringja á neyðarlínuna. Hann sá síðan hvar lítil stúlka var að reyna að grafa vinkonu sína upp eftir að snjóhengjan lenti á henni. 

Mikið snjóaði á Akureyri í nótt og morgun og voru götur ófærar. Helstu strætisvagnaleiðir höfðu hins vegar verið opnaðar um hádegisbil. Þá var hætt að snjóa og einnig hlýnaði í veðri og þá varð snjórinn þyngri og hætta jókst á að hengjur féllu af þökum. Bendir lögreglan íbúum á að kanna þök húsa sinna af þessum sökum.

Einn smávægilegt umferðaróhapp varð á Akureyri í dag en annars lætur lögreglan vel af ástandinu. Enn eru götur í úthverfum ill- eða ófærar vegna snjóþyngsla. 

Mikið hefur snjóað á Austurlandi í dag. Að sögn lögreglunnar á Egilsstöðum er hægviðri og því sé þetta ekta jólasnjór. Enginn óhöpp, sem tengjast snjókomunni, hafa verið tilkynnt til lögreglunnar þar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka