Biskup Íslands segir að vantraust á stofnunum og forystu samfélagsins sé mikið áhyggjuefni. Þjóðarpúls Capacent Gallup sýni þverrandi traust á þjóðkirkjunni og biskupi Íslands. Viðhorfskönnun sýni aftur á móti að meira traust ríki meðal almennings til sóknarkirkjunnar og prestsins í nærsamfélaginu.
„Þjóðarpúls Capacent Gallup sýnir þverrandi traust á þjóðkirkjunni og biskupi Íslands. Í því helst í hendur óþol í garð stofnana almennt og reiði vegna deilna og hneykslismála sem skekið hafa kirkju og samfélag," sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, þegar hann ávarpaði kirkjuþing, sem var sett í morgun í Grensáskirkju.
Engin ríkiskirkja á Íslandi
Þá sagði hann að æ fleiri játi sig hlynnta aðskilnaði ríkis og kirkju, straumurinn sé þungur til þeirrar áttar. Það sé sem margir álíti það sjálfsagt og einfalt mál.
„Samt er engin ríkiskirkja á Íslandi og rangt að tala um að hér sé ríkisrekin kirkja og að ríkið hafi afskipti af trúmálum. Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag sem nýtur sérstöðu og er í sérstöku sambandi og samstarfi við ríkið í gagnrýnni samstöðu með þjóðríkinu og þjóðinni. Það samstarf og samskipti taka breytingum og þróast í samræmi við samfélagsþróunina,“ sagði Karl.
Hvað varði samband ríkis og kirkju þá hafi hann talið mikilvægt að einblína ekki á aðskilnað, heldur samstarf og samstöðu, og efla það í þágu hins góða samfélags. Það sé samt nauðsynlegt að hlusta á kröfuna um aðskilnað og gera allt sem unnt sé að stuðla að upplýstri umræðu um hvað í þeirri kröfu felist.
Trú og trúariðkun gegnir mikilvægu hlutverki
Þá segir Karl að þjóðarpúlsinn birtist ekki aðeins í viðhorfskönnunum. Hann birtist líka í þátttöku í starfi kirkjunnar og væntingum um þjónustu hennar og atbeina í samfélaginu.
„Það er líka þjóðarpúls sem við hlustum eftir og hann gefur önnur og ólík skilaboð. Það er alveg ljóst að trú og trúðariðkun gegnir mikilvægu hlutverki í lífi Íslendinga. Í nýlegri viðhorfskönnun Capacent kemur í ljós meira traust almennings til sóknarkirkjunnar og prestsins í nærsamfélaginu en þjóðarpúlsinn hefur mælt til þjóðkirkjunnar og biskups. Ljóst er að íslenska þjóðin treystir sóknarkirkjunni og prestunum. Fólk sem þiggur þjónustu kirkjunnar treystir henni,“ sagði Karl.