Forsætisnefnd kirkjuþings gerir tillögu um að Róbert R. Spanó, prófessor og forseti lagadeildar Háskóla Íslands, Berglind Guðmundsdóttir sálfræðingur og Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness, sitji í rannsóknarnefnd um viðbrögð og starfshætti þjóðkirkjunnar vegna ásakana á hendur Ólafi Skúlasyni vegna kynferðisbrota. Lagt er til að Róbert verði formaður nefndarinnar.
Pétur Kr. Hafstein, forseti kirkjuþings, mælti fyrir tillögunni um rannsóknarnefnd á kirkjuþingi í dag og fór þess á leit við þingið að atkvæði verði greidd um þessa tillögu í einu lagi, þ.e. tillaga að starfsreglum um rannsóknarnefndina og að nefndarmönnum.
Pétur sagði, að í tillögunni um skipun nefndarinnar færi saman reynsla og þekking á sviði stjórnarfars og stjórnsýslu, starfsemi dómstóla og viðbragða vegna persónulegra áfalla, þ.a.m. vegna kynferðisofbeldis. Í starfi nefndarinnar muni meðal annars reyna á mat á trúverðugleika frásagna og stjórnsýsluleg viðmið um eðlileg viðbrögð í óvenjulegum aðstæðum auk greiningar á áfallastreitu.