Búið er að endurvekja ÍSFÁN, félag Íslendinga í Árósum í Danmörku, en fráfarandi stjórn félagsins tilkynnti eftir aðalfund í október að félagið hefði verið lagt niður vegna áhugaleysis.
Á aðalfundinum, sem haldinn var í októberlok, mætti aðeins 1 fyrir utan fráfarandi stjórn, sem á sér þann kost vænstan, að leggja starfsemina niður. Félagið hefur starfað í 40 ár í Árósum.
Þegar fréttir bárust af þessu komu fram óskir um að efna til framhaldsfundar, sem haldinn var í gær. Á fundinn mættu um 15 manns og tókst að manna nýja stjórn félagsins og fá fólk í þorrablótsnefnd.
Á heimasíðu félagsins segir nýja stjórnin, að þrátt fyrir allt sé ljóst, að mikill áhugi sé fyrir áframhaldandi starfsemi á vegum félagsins. Það sýni þáttaka í þeim atburðum sem félagið hafi staðið fyrir fram til þessa. Þannig hafi verið metþáttaka á árlegt jólaball í fyrra. Þá mættu 150 manns mættu í skötuveislu, uppselt var í mat á þorrablót í byrjun þessa árs og nú sé þegar kominn biðlisti í mat á þorrablótið 2011.
Þá hafi mikill fjöldi mætt á 17. júní hátið félagsins í sumar þrátt fyrir hellirigningu. Voru grillaðar 220 SS pylsur, sem allar hurfu ofan í landann.