Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði för manns á Sæbraut í morgun eftir að hann hafði reynt að komast undan með því að aka á ofsahraða. Að sögn lögreglu fór hjólbarði af öðru framhjólinu í látunum en maðurinn hélt áfram og ók áfram á felgunni á allt að 120 km hraða.
Lögreglan ætlaði að stöðva för mannsins við Vatnsmýrarveg í morgun en hann sinnti þá ekki stöðvunarmerkjum og ók á ofsahraða eftir Hringbraut og síðan áfram inn á Sæbraut. Þar tókst lögreglumönnum að stöðva bílinn með því að aka á hann.
Að sögn lögreglu er talið að ökumaðurinn sé á þrítugsaldri. Maðurinn var í annarlegu ástandi og var fluttur í fangageymslur. Hann verður yfirheyrður síðar í dag.