Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hér hefur verið síðustu vikur og rætt við íslensk stjórnvöld í tengslum við fjórðu endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands, hefur lokið störfum. Fram kemur í tilkynningu að sjóðurinn þurfi lengri tíma til að leggja mat á áhrif þeirra tillagna, sem séu í umræðunni vegna skuldavanda hér á landi.
Í yfirlýsingu frá Julie Kozack, formanni sendinefndar AGS, segir að rætt hafi verið við háttsetta embættismenn, þingmenn, fræðimenn og fulltrúa einkafyrirtækja og verkalýðsfélaga en nefndin kom hingað 2. nóvember.
Segir Kozack, að íslenska hagkerfið þróist áfram í rétta átt eftir hrunið og sú þróun sé studd af efnahagsáætlun Íslands og AGS. Áfram dragi úr verðbólgu og afgangur sé af vöruskiptum. Hagvöxtur sé smátt og smátt að glæðast og búist sé við að hann taki betur við sér á næsta ári þótt vöxturinn sé heldur hægari en áður var áætlað vegna tafa í fjárfestingarverkefnum. Miklu skipti fyrir efnahagsbatann og varanlegan hagvöxt að niðurstaða fáist í endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja innan þeirra marka sem fjárhagur ríkissjóðs leyfi.
Þá segir í yfirlýsingunni, að áfram sé unnið að endurskipulagningu fjármálakerfisins. Svo virðist, sem áhrif dóma Hæstaréttar um gengisbundin lán í júní og september muni verða lítil. Einnig sé unnið að endurskipulagningu sparisjóða og því að styrkja önnur fjármálafyrirtæki en bankana.
„Viðræður um stefnumörkun snérust um að endurskipuleggja skuldir heimila og fyrirtækja, um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2011 og endurskipulagningu bankakerfisins. Breið samstaða hefur náðst um stefnumörkun, sem geti náð fram þeim markmiðum, sem sett eru fram í efnahagsáætluninni en meiri tíma þarf til að meta áhrif nýrra aðgerða, sem nú er rætt um varðandi skuldir heimila. Viðræður munu halda áfram á næstu vikum með það að markmiði að hægt verði að leggja fjórðu endurskoðun efnahagsáætlunarinnar fyrir framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins seint á þessu ári eða í byrjun þess næsta," segir í yfirlýsingunni.