Slökkviliðsmenn eru enn að störfum í húsi við Laugaveg þar sem tilkynnt var um mikinn reyk, sem lagði frá þaki hússins. Hefur verið kallað út aukalið vegna þessa. Slökkviliðsmenn hafa leitað að upptökum eldsins en allt bendir til þess að eldurinn sé í risi hússins eða þaki.
Húsin á Laugavegi 38, 40, 40a og 42 eru sambyggð. Þar eru meðal annars veitingastaður, verslanir og íbúðir.
Fólk sem var í íbúðum hússins að Laugavegi 40a kom sér sjálft út. Lögreglan rýmdi íbúðir í nærliggjandi húsum. Fólkið fékk að snúa aftur heim í kvöld með því skilyrði að það færi ekki að sofa fyrr en starf slökkviliðsins væri komið lengra.
Slökkvistarf er erfitt og tafsamt. Eldurinn er í þaki yfir risíbúð og þarf að rífa þakið bæði að innan og utan. Kallar starfið á mikinn mannskap og tækjabúnað.