Ögmundur Jónasson, dóms- og mannréttindaráðherra, hefur um helgina viðrað þá hugmynd, að reynt verði á næstu mánuðum að fá fram niðurstöðu í tiltekin afmörkuð mál í aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og í kjölfarið á því metið hvort raunhæft sé að halda áfram viðræðunum, sem verði bæði kostnaðarsamar og langvinnar.
Í grein í Morgunblaðinu í gær spurði Ögmundur: „Hvers vegna ekki sleppa aðlögunarferlinu og vinda okkur í viðræður? Klára þær á tveimur mánuðum og greiða atkvæði um afurðina?"
Sagðist hann hafa hitt nokkra félaga sína úr verkalýðshreyfingunni nýlega, „hýra og glaða í bragði, enda nýkomnir úr samkvæmi þar sem samningamenn Íslands við ESB höfðu verið að „hrista sig saman“. Ég spurði hvort þeir ætluðu ekki að haska þessu af, verkið væri í reynd ósköp einfalt, snérist um að kortleggja ágreininginn við ESB um auðlindamál, hvort við gætum samið um deilistofna eða yrðum undirseld ákvörðunum í Brussel, hvort við gætum rekið landbúnað á okkar eigin forsendum, hvort við sem ESB ríki kæmumst upp með sömu fyrirvara í lögum um þjónustuviðskipti og við gátum sett sem EES ríki í þjónustutilskipunina vorið 2009. Ekkert af þessu er flókið. Fram þyrfti að fá hver pólitískur vilji er í Brussel," skrifaði Ögmundur.
Hann sagði í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag, að þetta væru allt einföld skýr mál, sem fá þyrfti niðurstöðu í. Ljóst væri að viðræðuferlið væri gríðarlega kostnaðarsamt og til þess þyrfti stórar sveitir manna mánuðum og árum saman úti í Brussel á háum dagpeningum.
„Hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að við fáum niðurstöðu í þessi skýru mál? Er hægt að gera þetta með þeim hætti, sem ég er að leggja til eða er ekki hægt að gera það?" spurði Ögmundur.
Sigurjón M. Egilsson, stjórnandi þáttarins, vísaði til þess að mikill klofningur væri innan raða Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, um aðildarviðræðurnar við ESB. Ögmundur sagði rétt, að gríðarlega skiptar skoðanir væru um málið og viðræðuferlið innan VG. Raunar væru flokksmenn sammála um að það þjónaði ekki hagsmunum Íslands að ganga í Evrópusambandið og sumir hefðu verið andvígir því að sækja um aðild. Aðrir, og þar á meðal hann, hefðu viljað sækja um aðild til að verða við lýðræðislegri kröfu úti í þjóðfélaginu.
Nú væri hins vegar ljóst, að langvinnt aðildarviðræðuferli yrði mjög kostnaðarsamt, nú þegar verið væri að spara á öllum sviðum. „Ef hægt er að benda málefnalega á að hægt sé að gera þetta með þeim hætti sem ég legg til, hvers vegna þá ekki?" sagði Ögmundur.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í þættinum í dag, að þetta væru óraunhæfar væntingar hjá Ögmundi. „Evrópusambandið er ekki korter í þrjú lausn. Þetta er langtímaákvörðun," sagði Vilhjálmur og bætti við, að engin þörf væri á því fyrir Íslendinga að flýta sér enda líklegra að gerð verði mistök verði ákvörðun tekin í skyndi.