Bankarnir sýni íbúum á gossvæðum skilning

Gosmökkur frá Eyjafjallajökli.
Gosmökkur frá Eyjafjallajökli. mbl.is/Kristinn

Samráðshópur, sem fjallað hefur um afleiðingar eldgossins í Eyjafjallajökli, leggur meðal annars til að Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur fari þess á leit við bankana að þeir sýni viðskiptavinum sínum á þeim svæðum, sem urðu illa úti vegna öskufalls og flóða, sérstakan skilning og sveigjanleika við greiðslu lána til að mæta þessum óvenjulegu aðstæðum.

Fram kemur í skýrslu, sem samráðshópurinn hefur sent frá sér, að efnahagur margra hafi raskast og þrengst vegna afleiðinga gossins, bæði hefðbundinna bænda og ferðaþjónustubænda.

Í samtölum við bændur hafi allmargir látið í ljós áhyggjur vegna þrengri stöðu og skertra möguleika til að standa undir greiðslum lána og öðrum skuldbindingum.

Þá sé ljóst að nokkurt tjón hefur orðið á vélum og búnaði sem hvorki fáist bætt af Bjargráðasjóði né Viðlagatryggingu. Fólk hafi í sumum tilvikum orðið fyrir miklum aukaútgjöldum, til að mynda vegna aukins aksturs, skemmda á bílum, vinnutækjum og hitaveitu.

Í skýrslunni kemur m.a. fram, að óvissan um hvort aftur fari að gjósa þjakaði íbúa á svæðinu. Öskufokið í Rangárþingi eystra valdi fólki einnig mjög miklum óþægindum. Þess beri þó jafnframt að geta að skynja hafi mátt æðruleysi, mikla þrautseigju og kraft til að takast á við það sem framundan er. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert