Talsmaður stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins hafnar hugmyndum Ögmundar Jónassonar, dómsmálaráðherra, um að reynt verði að fá skjóta niðurstöðu um tiltekin ágreiningsmál í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
„Almennar reglur okkar eru mjög skýrar og þær eiga við alla umsækjendur," hefur vefurinn EUobserver.com eftir Angelu Filota, talsmanni stækkunarskrifstofunnar. „Það er ekkert hægt að stytta sér leið og enginn fær flýtimeðferð. Lönd fá aðild þegar þau eru 100% reiðubúin."
Formlegar samningaviðræður Íslands og Evrópusambandsins um aðild hófust í Brussel í dag þegar íslenska samninganefndin átti fund með embættismönnum frá framkvæmdastjórn ESB. Um er að ræða upphaf svonefndrar rýnivinnu en þá er borin saman löggjöf á Íslandi og innan Evrópusambandsins eftir efnisflokkum. Þegar henni er lokið munu Ísland og Evrópusambandið skilgreina samningsstöðu sína og hinar eiginlegu samningaviðræður um einstaka efnisflokka mun hefjast.