Öryrkjar fremur fráskildir, fátækir og í fjölbýli

mbl.is/Árni Torfason

Konur eru hlutfallslega fleiri í hópi öryrkja, öryrkjar eru fremur fráskildir en aðrir og menntunarstig þeirra er talsvert lægra en gerist og gengur meða þjóðarinnar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu á högum og lífskjörum öryrkja sem unnin var fyrir Öryrkjabandalag Íslands og kynnt á blaðamannafundi í morgun.

 Skýrslan er byggð á gögnum úr rannsókn á högum öryrkja, sem gerð var á vegum Þjóðmálastofnunar árin 2008 - 2009.

Í skýrslunni kemur fram að aldursdreifing meðal öryrkja er önnur og í raun öfug við það sem er meðal þjóðarinnar í heild. Kynin dreifast heldur ekki jafnt á aldurshópana, þar sem karlar raða sér hlutfallslega frekar en konur í yngstu aldurshópana, en konur eru hlutfallslega fleiri um og eftir miðjan aldur.  

Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, sagði að skýrslan væri mjög mikilvægt tæki í réttindabaráttu öryrkja. 

Fátækt virðist vera hlutskipti margra öryrkja í samanburði við aðra þjóðfélagshópa, en hátt í helmingur svarenda var óánægður með fjárhagsafkomu sína og sagðist hafa átt erfitt með að greiða útgjöld undanfarna 12 mánuði, sambærileg tala fyrir þjóðina í heild er 12%.

Helmingur öryrkja er giftur eða í sambúð, athygli vekur hversu hátt hlutfall þeirra, einkum karla. eru einhleypir. Hjúskaparstaða rúmlega 20% þeirra sem svöruðu könnuninni hefur breyst eftir að vinnufærni þeirra skertist. Hlutfall fráskildra öryrkja er talsvert hærra en hjá þjóðinni í heild.

Í lok 2008 var heildarfjöldi örorkulífeyrisþega um 14.500 manns. Algengasta ástæða örorku karla er geðröskun, en hjá konum er örorka oftast af völdum sjúkdóma í stoðkerfi. Geðröskun er algengasta ástæða örorku hjá einstæðum mæðrum.

Meirihluti öryrkja býr í fjölbýlishúsi, öfugt við meirihluta þjóðarinnar. 29% karla og 22% kvenna í hópi öryrkja búa í leiguhúsnæði, sem er talsvert hærra hlutfall en á landsvísu.Rúm 17% öryrkja á aldrinum 30-39 ára búa hjá foreldrum eða ættingjum.

Heildartekjur öryrkja fyrir skatt voru mismunandi eftir kynjum.Meðaltal tekna karla var 196 þúsund krónur á mánuði, en kvenna 163 þúsund krónur.

96% öryrkja hafa verið á vinnumarkaði. Áföll, veikindi eða slys eru helstu ástæður þess að fólk er í hópi öryrkja. 8% þeirra eru með háskólamenntun, en 30% þjóðarinnar er með slíka menntun.72% öryrkja hafði ekki lokið formlegu námi á framhaldsskólastigi áður en til örorkumats kom. Að sögnj Guðrúnar Hannesdóttur, höfundar skýrslunnar, er menntunarstigið mikilvægur þáttur í þessu samhengi. Hugsanlega megi draga þá áyktun að í láglaunastörfum, sem krefjist lítillar menntunar, sé vinnuvernd ábótavant.

Mjög fáir öryrkjar hafa fengið skipulega starfsendurhæfingu eða starfsþjálfun. Karlar eru líklegri til að fá slíka endurhæfingu. Meirihluti svarenda segist myndu þiggja hana, stæði hún til boða. Rekin er starfsendurhæfing fyrir fatlaða og öryrkja, Hringsjá. Að sögn Guðmundar er kostnaðurinn við reksturinn svipaður og örorkubætur í eitt ár.

Guðmundur benti á að afar mismunandi sé hvernig örorku fólks sé háttað, í mörgum tilfellum sé mikill dagamunur á fólki. „Vinnumarkaðurinn er ekki tilbúinn til að taka á móti fólki sem getur unnið suma daga, en aðra ekki.“

„Við hljótum að vilja einn vinnumarkað fyrir alla, eitt samfélag fyrir alla,“ sagði Guðrún.

Að sögn Guðmundar hefur að undanförnu komið fram ný nálgun á málefni fatlaðra. Að réttindi þeirra og lífskjör snúist meðal annars um að samfélagið lagi sig að fötluðum, en ekki eingöngu að fatlaðir aðlagi sig samfélaginu.   „Við erum því miður langt á eftir nágrannalöndunum. Ég held það sé óhætt að tala um 10-20 ár,“  sagði Guðmundur.

Um 45% öryrkja segist finna fyrir fordómum vegna fötlunar sinnar eða örorku, konur finna meira fyrir slíkum fordómum. Athygli vekur að barnafólk finnur frekar fyrir fordómum, en barnlausir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert