Karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. nóvember að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Maðurinn, sem var handtekinn í Venesúela í Suður-Ameríku í september var afhentur íslenskum lögregluyfirvöldum á föstudag.
Maðurinn er grunaður um aðild að umfangsmiklu fjársvikamáli sem er til rannsóknar hjá lögreglu en talið er að sviknar hafi verið 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu. Alþjóðalögreglan Interpol lýsti eftir manninum að ósk íslensku lögreglunnar.
Málið kom upp um miðjan september og hafa nokkrir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við rannsókn þess.