Smálánafyrirtækið Kredia fagnar frumvarpi efnahags- og viðskiptaráðherra um starfsemi smálánafyrirtækja en fyrirtækið hefur aldrei lánað ólögráða einstaklingum enda slíkt ekki heimilt samkvæmt lögum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
„Vegna umfjöllunar um fyrstu drög að frumvarpi efnahags- og
viðskiptaráðherra um starfsemi smálánafyrirtækja viljum við koma eftirfarandi á framfæri.
Mikið er t.d. gert úr því að ekki verði heimilt að lána ólögráða einstaklingum, en slíkt er engin breyting þar sem það hefur aldrei verið leyfilegt eða gert. Hvað önnur atriði varðar þá á frumvarpið eflaust eftir að breytast í endanlegri útgáfu til að standast lög og er þessvegna ekki hægt að ræða frumvarpið fyrr en endanleg mynd er komin á það. Ólíklegt er t.d. að strangari lög eða reglur eigi að gilda um lán á 10-40 þús. krónum
en húsnæðis- eða bílalánum upp á tugi milljóna.
Við fögnum því aftur á móti að koma eigi regluverk um slíka starfsemi sem
ekki hefur verið til þessa og er það til bóta. Enda höfum við unnið að því
með ráðherra að sett verði regluverk um starfsemina."