Nábítar, böðlar & illir andar halda járnabeygjuvélinni

Héraðsdómur Reykjaness hefur hafnað kröfu eignaleigunnar Lýsingar um að járnabeygjuvél verði tekin úr vörslu félagsins Nábíta, böðla & illra anda ehf. með beinni aðfarargerð.

Félagið, sem áður hét  Bindir og vír ehf., gerði kaupleigusamning um járnabeygjuvélina í september 2008 og var samningsupphæðin, rúmar 23 milljónir, tengd japönskum jenum og svissneskum frönkum.

Félagið hætti að greiða af samningnum í ágúst árið eftir og í desember rifti Lýsing samningnum og krafðist þess að vélinni yrði skilað. Forsvarsmenn félagsins sendu Lýsingu bréf í ágúst og október á síðasta ári þar sem lögmæti gengistryggingarinnar var véfengt. Hins vegar væri félagið tilbúið að greiða höfuðstól skuldarinnar í íslenskum krónum að viðbættum vöxtum og frádregnum þeim greiðslum sem hafi verið inntar af hendi.

Fram kemur í héraðsdómi að Lýsing hafi ekki svarað þessum bréfum heldur haldið áfram innheimtu með óbreyttum hætti. Í sumar hafi  Hæstiréttur síðan komist að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að binda greiðslur af samningi, eins og þeim sem þetta mál snúist um, við gengi erlendra gjaldmiðla.

Í niðurstöðu dómsins segir, að gerðarþoli hafi ítrekað lýst sáttavilja í fyrirtökum máls þessa en það sama verði ekki sagt um gerðarbeiðanda. En telja verði að slík óvissa hafi verið um ætluð vanskil Nábíta, böðla & illra anda við riftun samningsins, að ekki séu uppfyllt  laga um aðför. 

Lýsing lagði í ágústlok í sumar fyrir dóminn endurútreikning á samningnum miðað við breyttar forsendur. Þar kom fram, að félagið hefði í ágúst 2009 verið búið að ofgreiða 477.769 krónur. Í desember 2009, þegar samningnum var rift, hafi það verið 245.567 krónur í skuld. Höfuðstóll hinn 20. ágúst 2010 er sagður vera 6.671.249 krónur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert