Heilbrigðisráðuneytið gerir athugasemdir við úttekt sem gerð hefur verið á svonefndri Kragaskýrslu ráðuneytisins um sjúkrahúsþjónustu og vísað hefur verið til í fjölmiðlum. Niðurstöður úttektarinnar eru í meginatriðum rangar þar sem í henni eru aðferðafræðilegar villur og hugtök rangt notuð.
„Framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga hefur skrifað opið bréf til heilbrigðisráðherra sem birtist í Fréttablaðinu 10. nóvember. Þar er meðal annars vísað í niðurstöður fyrrgreindrar úttektar sem Guðrún Bryndís Karlsdóttir, verkfræðingur, gerði á skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um endurskipulagningu sjúkrahúsþjónustu á suðvesturhorninu, s.k. Kragaskýrslu, að beiðni landshlutasamtaka sveitarfélaga á Suðurlandi, Suðurnesjum og Vesturlandi. Í bréfinu segir að úttektin sýni að sambærileg þjónusta sé allt að tíu sinnum dýrari á Landspítalanum en á smærri sjúkrahúsum.Landshlutasamtökin hafa einnig sent ráðuneytinu bréf þar sem vísað er til sömu úttektar og sagt að niðurstöður hennar bendi til þess að hagkvæmara væri að færa verkefni frá Landspítalanum til Kragasjúkrahúsanna en ekki frá þeim.
Heilbrigðisráðuneytið hefur farið yfir umrædda úttekt og leiðir sú skoðun í ljós að niðurstöðurnar eru í meginatriðum rangar. Höfundurinn gefur sér ýmsar forsendur sem ekki fá staðist og umfjöllun og niðurstöður byggjast að miklu leyti á misskilningi á hugtökum og aðferðafræðilegum villum. Þar vegur þyngst rangur samanburður kostnaðareininga, segir á vef ráðuneytisins en því er nánar lýst hér