Bandormur um auknar tekjur ríkisins

Fjármálaráðuneytið.
Fjármálaráðuneytið.

Fjár­málaráðherra hef­ur lagt fram frum­varp á Alþingi, svo­nefnd­an bandorm þar sem til­laga er um breyt­ing­ar á ýms­um lög­um með það að mark­miði að auka tekj­ur rík­is­sjóðs á næsta ári.

Bæði er gert ráð fyr­ir hækk­un á ýms­um skött­um og einnig um lækk­un á út­gjöld­um rík­is­sjóðs. Ef þær ráðstaf­an­ir, sem lagt er til að gripið verði til í frum­varp­inu, verða samþykkt­ar mun af­koma rík­is­sjóðs batna um 15,6 millj­arða króna á árs­grund­velli.   Er það í sam­ræmi við þær for­send­ur sem sett­ar eru fram í frum­varpi til fjár­laga fyr­ir næsta ár. 

Sam­kvæmt frum­varp­inu er gert ráð fyr­ir að fjár­magn­s­tekju­skatt­ur hækki úr 18% í 20% í byrj­un næsta árs og sömu­leiðis tekju­skatt­ur lögaðila. Svo­nefnd­ur auðlegðarskatt­ur á fast­eign­ir hækk­ar úr 1,25% í 1,50% af nettó­eign hjóna yfir 100 millj­ón­um og 75 millj­ón­um hjá ein­stak­ling­um. Þá verður erfðafjárskatt­ur hækkaður, áfeng­is- og tób­aks­gjald lagt á vör­ur í frí­höfn­um, kol­efn­is­gjald hækk­ar og einnig er gert ráð fyr­ir viðbót­ar­heim­ild til út­tekt­ar á sér­eign­ar­sparnaði, sem á að skila rík­inu aukn­um skatt­tekj­um. Sam­tals munu tekj­ur rík­is­ins aukast um 9,1 millj­arð á næsta ári. 

4% hækk­un á krónu­tölu­skött­um

Til viðbót­ar er gert ráð fyr­ir al­mennri 4% hækk­un á nokkr­um svo­kölluðum krónu­tölu­skött­um í sam­ræmi við verðlags­for­send­ur fjár­laga­frum­varps­ins. Í fyrsta lagi er lögð til 4% hækk­un á ol­íu­gjaldi, al­mennu og sér­stöku kíló­metra­gjald, al­mennu vöru­gjaldi af eldsneyti og sér­stöku vöru­gjaldi af bens­íni. Sam­tals er gert ráð fyr­ir að þess­ar hækk­an­ir skili um 750 millj­óna króna tekj­um í rík­is­sjóð. Þá er einnig lagt til að al­mennt og sér­stakt kíló­metra­gjald hækki um 4% og að hækk­un­in muni skila 30 millj­óna tekju­auka.

Þá er lagt til að sér­stakt út­varps­gjald hækki um 4% og það skili 140 millj­ónim króna í aukn­um tekj­um, að vöru­gjald á áfengi hækki um 4% sem auki tekj­ur rík­is­sjóðs um 400 millj­ón­ir og vita­gjald hækki, sem skili 10 millj­óna króna. tekju­auka.

Jafn­framt er lagt til að gjald í Fram­kvæmda­sjóð aldraðra verði hækkað um 4% og að hækk­un­in skili um 60 millj­ón­um.

Útgjöld­in lækka

Útgjöld rík­is­ins verða einnig lækkuð. Þannig er gert ráð fyr­ir að breyt­ing­ar á barna­bót­um lækki greiðslur rík­is­ins um 1,3 millj­arða á næsta ári.  Þá á að hækka tekju­teng­ingu vaxta­bóta úr 6% í 7% og skerða einnig bæt­urn­ar. Þetta á að spara 2,2 millj­arða. 

Þá er lagt til að sókn­ar­gjöld lækki úr 767 krón­um á mánuði sam­kvæmt nú­gild­andi lög­um í 698 krón­ur fyr­ir árið 2011. Með breyt­ing­unni er gert ráð fyr­ir að út­gjöld rík­is­ins á ár­inu 2011 lækki um 183 millj­ón­ir. 

Þá er lagt til að fram­lag rík­is­sjóðs á ár­inu 2011 til þjóðkirkj­unn­ar muni lækka um 100 millj­ón­ir og með sama hætti er lagt til að fram­lag rík­is­sjóðs til Kristni­sjóðs muni skerðast um 5,9 millj­ón­ir á ár­inu.  

Í fimmta og síðasta lagi er í sam­ræmi við verðlags­for­send­ur fjár­laga­frum­varps­ins lagt til að grunn­fjár­hæðir al­manna­trygg­inga verði ekki verðlags­hækkaðar. Seg­ir fjár­málaráðuneytið, að reikna megi með að fjár­heim­ild­ir hefðu ella orðið um 2,7 millj­örðum hærri miðað við spá um 3,5% al­menna verðlags­hækk­un.
 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka