Fjármálaráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um virðisaukaskatt. Megintilgangur breytinganna er að bæta skil og eftirlit með greiðslu virðisaukaskatts auk þess að bregðast við þeirri þróun sem orðið hefur vegna rafrænnar þjónustusölu.
Fjármálaráðuneytið segir, að ekki hafi verið gerð áætlun um hverju breytingarnar geti skilað en ef vel takist til með framkvæmdina megi ætla að tekjuaukning geti orðið umtalsverð og að ekki komi til aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.
Í frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar til að bæta skil og eftirlit með greiðslu virðisaukaskatts. Þeim fer alltaf fjölgandi, sem ekki skila virðisaukaskattsskýrslum á réttum tíma og hafa því sætt áætlunum skattyfirvalda.
Samkvæmt gildandi lögum hefur ekki verið unnt að taka þessa aðila af virðisaukaskattsskrá og því hafa þeir jafnvel verið árum saman á skránni án þess að standa skil á virðisaukaskattinum í ríkissjóð. Ríkissjóður hefur því orðið af háum fjárhæðum vegna þessara skattaðila auk þess sem allt eftirlit hefur verið þungt í vöfum, tímafrekt og kostnaðarsamt. Í frumvarpinu eru lagðar til ýmsar breytingar með það að markmiði að auka tekjur og lækka kostnað.
Einnig er lögð til breyting vegna þróunar á tækniumhverfi til að skilgreina hvað telst vera útflutningur á rafrænt afhentri þjónustu og teljist þar með ekki til skattskyldrar veltu. Ákvæði núverandi laga hafa þótt óljós hvað þetta varðar og gerir breyting þessi einnig betur kleift að afmarka það hvað teljist til afhendingar á rafrænni þjónustu hjá gagnaverum hér á landi.
Þá er lagt til að endurgreiðsla virðisaukaskatts af sölu á heitu vatni og rafmagni til hitunar húsa og laugarvatns verði felld niður og að gerðar verði nokkrar breytingar á fjárhæðarmörkum, frestum og skilgreiningum.
Loks er lagt til að framlengd verði til ársloka 2011 heimild til að endurgreiða virðisaukaskatt vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða til þeirra sem hafa leyfi til fólksflutninga í atvinnuskyni. Einnig verði framlengd heimild til endurgreiðslu 100% virðisaukaskatts til byggjenda og eigenda íbúðarhúsnæðis og frístundahúsnæðis. Þetta á jafnframt við um húsnæði sem er alfarið í eigu sveitarfélaga eða stofnana og félaga sem alfarið eru í eigu þeirra.